135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

fjáraukalög 2007.

103. mál
[15:53]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir orð hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um mikilvægi þess að láta ekki húseignir ríkisins grotna niður. Það verður að standa vel að viðhaldi þeirra og veita til þess myndarlega fjármuni.

Það er rétt að heilbrigðisstofnanir eru margar hverjar nokkuð komnar til ára sinna og þarfnast mikils viðhalds. Hann nefndi húsnæði heilbrigðisstofnunar í Reykjanesbæ. Ég vil leyfa mér að minna á hús Rannsóknarstofu í veirufræði við Ármúla þar sem ekki hefur verið, held ég, sett króna í viðhald árum eða áratugum saman. Það er svo komið að límband er sett yfir rúður þegar kemur í þær brestur eða brot.

Það hefur verið lenska hér á undanförnum árum að draga úr viðhaldi á opinberum byggingum þangað til það er orðið nær óviðráðanlegt að gera þær upp. Þá er gripið til þess ráðs að láta einkaaðila byggja fyrir sig nýtt hús og leigja það aðeins til 30 eða kannski 50 ára. Þannig hefur í rauninni ein mesta einkavæðing Íslandssögunnar farið fram hægt og hljótt á undanförnum árum. Ég fagna því að nú kveður við annan tón hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni og tel að það sé tími til kominn að við tökum höndum saman um viðhald á húseignum ríkisins í stað þess að láta þær grotna niður.