135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

Lánasýsla ríkisins.

87. mál
[16:06]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um frumvarpið nú við 1. umr. þess en með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að leggja niður ríkisstofnun, Lánasýslu ríkisins. Ég tel mjög mikilvægt að þingið fari mjög rækilega í saumana á þessu. Ég minnist þess að mjög athyglisverð grein var birt á leiðaraopnu Morgunblaðsins um þetta efni þar sem vísað var til fyrirkomulags hjá öðrum þjóðum og því haldið fram að við værum ekki að stíga framfaraskref með því að færa þessa starfsemi inn undir Seðlabankann. Það er vissulega rétt að umfang starfsemi Lánasýslu ríkisins hefur dregist verulega saman í seinni tíð, einfaldlega vegna þess að lántökur af hálfu hins opinbera hafa verið minni en þær voru áður en við skulum minnast þess að sá tími getur runnið upp að nýju að þörf sé á því að ríkið ráðist í umfangsmiklar lántökur. Sú gósentíð mun ekki vara að eilífu að hægt sé að selja eignir ríkisins og afla þannig tekna í ríkissjóð og það er ekki endilega víst að við búum alltaf við þær skatttekjur sem við gerum nú í ljósi þess að verulegur hluti skattekna ríkisins eru svokallaðir þensluskattar þannig að þetta er allt saman breytingum undirorpið.

Ég kem hingað fyrst og fremst til þess að leggja áherslu á að fara þurfi mjög rækilega í saumana á þessum málum í meðförum þingsins og munum við þá að sjálfsögðu skoða þær röksemdir sem komu fram í umræddri Morgunblaðsgrein sem birtist mánudaginn 1. október eftir Þór Sari, sem er starfsmaður Lánasýslunnar og Morgunblaðið sá ástæðu til að birta þessa grein á leiðaraopnu sinni.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni enda þekki ég málið ekki svo að ég hafi tök á því að ræða það í þaula en legg áherslu á að þetta er mál sem við þurfum að gaumgæfa rækilega áður en það verður afgreitt í gegnum þingið.