135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

siglingalög.

88. mál
[16:10]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

Um er að ræða breytingu á IX. kafla siglingalaga sem fjallar um ábyrgð útgerðarmanns og takmörkun ábyrgðar en í þeim kafla er að finna undantekningu frá þeirri meginreglu skaðabótaréttar að sá sem ber ábyrgð á tjóni skuli bæta það að fullu. Þessar undantekningarreglur eru í formi ábyrgðartakmörkunar, þ.e. þar er kveðið á um hver getur verið hámarksbótafjárhæð vegna bótaskylds tjóns. Þetta eru sérreglur sem byggjast á alþjóðlegum samningi frá 19. nóvember 1976 og var sá samningur saminn að tilstuðlan Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar eða IMO. Hann öðlaðist gildi 2. desember 1986 og eru nú 50 ríki aðilar að honum. Ísland hefur ekki gerst aðili að samningnum og er því ekki bundið af honum þrátt fyrir að reglur IX. kafla endurspegli ákvæði hans. Ísland hefur hins vegar fullgilt og er aðili að eldri samningi frá 1957 um sama efni.

Þótt Ísland sé ekki bundið af ákvæðum samningsins frá 1976 endurspegla reglur IX. kafla siglingalaga ákvæði hans. Í kaflanum er því eins og í samningnum fjallað um hverjir eigi rétt á að takmarka ábyrgð, hvaða kröfur falla undir ábyrgðartakmörkun, hver eru ábyrgðartakmörkin, missi réttar til að takmarka ábyrgð og stofnun takmörkunarsjóða.

Þann 1. maí 1996 var samþykkt af hálfu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar bókun við samninginn frá 1976. Með þeirri bókum voru einkum gerðar breytingar á ábyrgðartakmörkunarfjárhæðunum og voru fjárhæðir hækkaðar verulega frá því sem var í samningnum enda full ástæða til, m.a. vegna verðbólgu á tímabilinu. Bókunin öðlaðist gildi í maí 2004. Nú eru 26 ríki aðilar að henni og er unnið að því á vegum utanríkisráðuneytisins að Ísland gerist einnig aðili.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu sem hér er lagt fram eru í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru með fyrrnefndri bókun. Með frumvarpinu er því verið að leggja til verulega hækkun þeirra fjárhæða sem bætur takmarkast við og leiðir það til mun betri stöðu þeirra sem verða fyrir tjóni eins og áður hefur verið sagt. Þá er einnig lögð til sú breyting með frumvarpinu að í stað þess að miða stærð skipa við brúttórúmlestir er miðað við brúttótonn. Auk þess er lögð til breyting á því hvaða vexti skuli reikna af takmörkunarfjárhæðum.

Ég mun nú í stuttu máli gera nánari grein fyrir breytingum sem lagðar eru til á einstökum ákvæðum.

Í fyrsta lagi er um að ræða breytingu á 177. gr. sem fjallar um upphæðir takmörkunarfjárhæða bæði vegna lífs- og líkamstjóns sem og annars tjóns. Auk þess að hækka fjárhæðir vegna einstakra krafna verulega er fellt niður ákvæði í 1. mgr. 177. gr. um hámarksfjárhæð bóta vegna farþegaskips enda er slíkt ákvæði ekki lengur að finna í bókuninni frá 1996. Eins og áður sagði er einnig lögð til sú breyting að miða stærð skipa við brúttótonn í stað brúttórúmlesta og er það í samræmi við áðurnefnda bókun.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á 180. og 183. gr. Þær breytingar snúa einungis að því að breyta tilvísun í samningi frá 1976 í tilvísun til bókunar frá 1996. Hér eru engar efnislegar breytingar á ákvæðunum á ferðinni.

Í þriðja lagi, hæstv. forseti, er lögð til breyting á 2. málslið 185. gr. laganna þar sem fjallað er um vexti sem reikna skal af takmörkunarfjárhæðum sem lagðar eru í takmörkunarsjóðinn sem kveðið er á um í 179. gr. laganna. Sú vaxtaviðmiðun sem er í gildandi lögum þykir óhentug enda liggur ekki alltaf fyrir hver hún skal vera á hverjum tíma. Því er lagt til að um vexti fari samkvæmt vaxtalögum, nr. 38 frá 2001, nánar tiltekið 2. málslið 4. gr., sem fjallar um vexti af almennum verðtryggðum útlánum. Hér er á ferðinni veruleg einföldun á vaxtaviðmiðinu frá því sem er í gildandi lögum.

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur komið fram eru þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu að mestu leyti fólgnar í hækkun takmörkunarfjárhæða og þar með verulega betri stöðu tjónþola. Þetta eru nauðsynlegar breytingar sem gera þarf, sérstaklega þar sem nú er unnið að aðild Íslands að bókuninni frá 1996 sem kveður á um þetta.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta frekari orð heldur legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.