135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

skipan ferðamála.

92. mál
[16:15]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála. Með lögunum sem tóku gildi 1. janúar 2006 voru gerðar verulegar skipulagsbreytingar sem fólust meðal annars í því að sett var á stofn Ferðamálastofa sem fer með það hlutverk að sjá um leyfisveitingar og aðra umsýslu vegna þeirrar starfsemi sem fellur undir lögin. Vel hefur tekist til við framkvæmd en orðið vart við einstök atriði sem betur mega fara. Rétt þykir að taka á þeim strax og eru þær úrbætur lagðar til með frumvarpinu sem hér er lagt fram. Ég geri nú nánari grein fyrir einstökum breytingum.

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á 7. gr. laganna þar sem fjallað er um skilgreiningu á hugtakinu ferðaskipuleggjandi. Nokkuð hefur borið á misskilningi meðal umsækjenda á því hvaða starfsemi getur fallið hér undir. Snýr það helst að því hvað felst í hugtakinu „dvöl“ og telja sumir að þar undir falli gisting og ferðaskipuleggjendur hafa þannig selt ferðir beint til neytenda sem standa lengur en í 24 klukkustundir. Þá er hins vegar komið inn á svið alferða og eru það einungis ferðaskrifstofur sem selja slíkar ferðir eins og skýrt er í öðrum ákvæðum laganna. Þær breytingar sem lagðar eru til eru til að fyrirbyggja þennan misskilning enda er mjög mikilvægt að munurinn á starfsemi ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofu sé skýr, einkum þar sem um sölu alferða fylgir skylda til að hafa sérstaka tryggingu.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 2. mgr. 8. gr. laganna en þar er kveðið á um myndrænt auðkenni sem Ferðamálastofa skal heimila leyfishöfum að nota. Með breytingunni er lagt til að leyfishöfum verði skylt að nota það auðkenni en eins og ákvæðið er nú orðað er sú skylda ekki nægilega skýr. Almennt nota leyfishafar þetta auðkenni þar sem það er staðfesting á því að viðkomandi hafi leyfi í lagi. Auk þess er auðvelt fyrir neytendur að ganga úr skugga um að viðskiptaaðilar hafi sín leyfi í lagi. Það þykir þó rétt að gera ráð fyrir að hægt sé að fá undanþágu frá þessari skyldu og er þá einkum verið að horfa til þess að það sé tæknilega erfitt eða kostnaðarsamt að koma því við, til dæmis ef starfsemin stendur einungis stuttan tíma ársins. Sækja þarf um slíka undanþágu til Ferðamálastofu.

Í þriðja lagi er um breytingu á 3. mgr. 18. gr. að ræða þar sem fjallað er um frest fyrir ferðaskrifstofu til að skila ársreikningum vegna mats á tryggingaskyldu. Í gildandi lögum er sá frestur til 1. apríl en lagt er til að fresturinn verði til 1. október. Það er í samræmi við almennan frest fyrirtækja til skattskila, en fyrirtæki eru almennt ekki í stakk búin að skila ársreikningum sínum fyrr en þá.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, er lögð til breyting á 1. mgr. 21. gr. um tímamörk ef leyfið fellur niður. Þar er um að ræða þegar leyfishafi verður gjaldþrota og lagt til að það miðist við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms.

Í fimmta lagi er lögð til breyting á 26. gr. en þar er fjallað um úrræði vegna brota á lögum og má segja að þetta sé veigamesta breytingin sem lögð er til í frumvarpinu. Hér er bæði um að ræða breytingu á 1. mgr. 26. gr. þar sem brotalýsinguna er að finna og einnig í 3. mgr. 26. gr. þar sem kveðið er á um úrræði vegna brota. Þar sem lögin kveða á um leyfisskylda starfsemi er nauðsynlegt að hafa virk úrræði til að grípa til ef brotið er gegn þeim með því að stunda starfsemi án þess að hafa lögbundið leyfi.

Breytingar á 1. mgr. snúa aðallega að skýrari brotalýsingu, þ.e. hvað teljist brot gegn ákvæðum laganna og er þar einnig tekið fram hvaða brot geta varðað úrræði það sem 3. mgr. kveður á um. Breytingin á 3. mgr. varðar það úrræði sem hægt er að grípa til vegna brota. Það felst í því að stöðva hina brotlegu starfsemi og er lagt til að Ferðamálastofa geti óskað eftir því við lögreglu að það verði gert. Þetta eru að sjálfsögðu verulega íþyngjandi úrræði sem verður að beita varlega. Til að takmarka beitingu þess eru því í ákvæðinu talin upp þau tilvik þar sem þetta er heimilt og er fyrst og fremst um að ræða að leyfisskyld starfsemi sé stunduð án tilskilins leyfis og starfsemin fer út fyrir það leyfi sem viðkomandi hefur. Heimild til beitingar þessa þvingunarúrræðis er því takmörkuð við þessi tilvik.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og legg áherslu á að hér er um að ræða úrbætur á annars ágætri löggjöf sem mun stuðla að bættri framkvæmd á þessu sviði. Þess má geta líka, virðulegi forseti, að þessar tillögur eru unnar í samráði við Ferðamálastofu sem fer með framkvæmd laganna.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.