135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

hafnalög.

93. mál
[16:29]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Hér liggur fyrir frumvarp til laga um breytingu á hafnalögum sem eru frá árinu 2003. Þannig vill til að þau lög voru að mestu leyti byggð á starfi nefndar sem samgönguráðherra þáverandi skipaði til þess að endurskoða hafnalögin í heild sinni. Undirritaður átti þá sæti í þeirri nefnd sem fulltrúi Hafnasambands sveitarfélaga. Ég get upplýst það hér að það nefndarstarf var undir forustu núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar og var að mörgu leyti mjög gott. Þar var unnið að því breyta hafnalögum og gera höfnum kleift að takast á við ýmsar breytingar sem orðið hafa á, má segja, rekstrarumhverfi hafnanna vegna breytinga í samfélagsmunstri, flutningamunstri og þess háttar, sem var óhjákvæmilegt að gera.

Hins vegar er kannski líka rétt að halda því til haga að á þeim tíma var ýmislegt í lagafrumvarpinu sem þáverandi samgönguráðherra flutti ekki algerlega í anda þeirra tillagna sem komu frá þeirri ágætu nefnd. Ráðherra ákvað sem sagt að víkja frá ýmsum tillögum sem komu frá nefndinni og að sjálfsögðu er ekkert annað um það að segja en að ráðherra hefur að sjálfsögðu heimildir til þess. Það er jú hann sem leggur fram frumvarpið í sínu nafni og hlýtur að ráða því hvernig hann gerir það úr garði. Engu að síður held ég að full ástæða sé til að skoða jafnvel fleiri greinar í hafnalögunum en gerð er tillaga um í þessu frumvarpi. Ég tek undir það með hæstv. samgönguráðherra að skynsamlegt sé að gera þær breytingar sem hér eru lagðar til varðandi 17. gr. Ég vil samt segja það strax í þessari umræðu, 1. umr., að ég mun á vettvangi samgöngunefndar óska eftir umfjöllun um fleiri greinar í þessu frumvarpi svo sem eins og 24. gr. Ég tel ástæðu til að fara betur yfir það hvernig hún er úr garði gerð. Ég tel eðlilegt og sjálfsagt í ljósi þess sem hefur verið að gerast varðandi tekjusamdrátt sveitarfélaga vegna skertra veiðiheimilda að breyta ákvæðum til bráðabirgða og framlengja þann tíma sem hafnirnar hafa til að ráðast í endurbætur. Ég hef hins vegar fyrirvara við það sem segir í fylgiskjalinu þar sem er umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið. Þar segir í lokaniðurstöðu, með leyfi forseta:

„Ekki er gert ráð fyrir breytingum á framlögum til samgöngumála.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.“

Ég held, virðulegur forseti, að nauðsynlegt sé að fara aðeins betur yfir þetta vegna þess að mér er kunnugt um að staða fjölmargra hafnarsjóða, ekki síst lítilla vítt og breitt um landið er mjög bágborin og aflasamdráttur sá sem nú hefur verið ákveðinn mun hafa veruleg áhrif á afkomu þeirra. Sömuleiðis er ljóst að ef slíkur aflasamdráttur er varanlegur til einhverra ára, fleiri en eins árs, kannski þriggja, fjögurra, fimm ára, þá mun það hafa enn þá alvarlegri afleiðingar fyrir fjölmarga hafnarsjóði.

Ég held þess vegna að full ástæða sé til að skoða fleiri ákvæði þessara laga og sjá hvort unnt er að koma betur til móts við þessa hagsmuni hafnarsjóðanna. Ég er ekki síst að tala um smærri hafnarsjóði vítt og breitt um landið, meðalstóra kannski, þar sem afkoman er bágborin. Ég held að það geti verið ástæða til að kanna hvort það sé skynsamlegt og lag og stuðningur við það að ekki bara framlengja þennan tíma sem hér er um að ræða, eins og bráðabirgðaákvæðið gerir ráð fyrir, heldur jafnvel að bæta einhverju inn í samgönguáætlunina til að koma betur til móts við þessa hafnarsjóði.

Mér finnst mikilvægt, virðulegi forseti, nú við 1. umr. að upplýsa að ég mun alla vega á vettvangi nefndarinnar óska eftir umræðum um þetta og að fá álit þeirra hagsmunaaðila sem hér um ræðir, meðal annars Hafnasambands Íslands og einstakra hafnarsjóða sveitarfélaga þess vegna. Ég er þess vegna kannski ekki algerlega sammála, ef svo má segja, niðurstöðunni í umsögn fjármálaráðuneytisins. En ég skil hana þannig að fjármálaráðuneytið geri ekki ráð fyrir neinum slíkum breytingum. Mér þætti fróðlegt að heyra það frá hæstv. samgönguráðherra hvort hann teldi það vera eitthvað sem kæmi til greina að skoða, eins og ég segi, bæði 24. gr. og framlögin í samgönguáætlun til hafnaframkvæmda á vegum sveitarfélaganna.