135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[16:35]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Málið varðar varðveislu viðkvæmra hafsvæða.

Þannig er mál með vexti að þetta frumvarp var flutt í fyrra en það var hvorki útrætt né afgreitt frá sjávarútvegsnefnd Alþingis. Þá var það flutt sem hluti af öðru og stærra frumvarpi en er nú flutt sem sérstakt frumvarp.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gerðar verði þær breytingar á lögunum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, að bætt verði inn tveimur málsliðum. Annars vegar þar sem kveðið er á um varðveislu viðkvæmra hafsvæða og hins vegar er gert ráð fyrir því að ráðherra geti með reglugerð ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með öllum eða tilteknum veiðarfærum eru bannaðar.

Þetta á sér þann aðdraganda að fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Árni M. Mathiesen, skipaði á sínum tíma nefnd til að fara yfir það hvort eðlilegt væri og æskilegt að setja upp tiltekin hafsvæði þar sem veiðar væru algjörlega bannaðar í því skyni að vernda viðkvæm hafsvæði. Þetta eru nokkur nýmæli í þeim skilningi að hingað til höfum við fyrst og fremst bannað veiðar á tilteknum svæðum með hliðsjón af stöðu fiskstofna o.s.frv. En þarna var verið að taka afstöðu til þess hvort eðlilegt væri að við bönnuðum tilteknar veiðar og veiðar algjörlega í kringum viðkvæm hafsvæði, t.d. kóralsvæði.

Skemmst er frá því að segja að nefndin, sem hæstv. fyrrverandi ráðherra, skipaði skilaði áliti sínu og mælti með tilteknum friðunarsvæðum sem yrðu sett út við landið. Við sendum þetta síðan til umsagnar til hagsmunaaðila og ég hef stundum sagt frá því að niðurstaðan í hópi þeirra var athyglisverð, þ.e. að setja fram breytingar sem fólu það í sér að stækka þessi hafsvæði frá því sem upprunalega hafði verið hugmyndin að gera. Á þeim grundvelli var síðan sett reglugerð sem kveður á um verndun þessara svæða.

Það er nauðsynlegt að setja styrkari lagastoð undir aðgerðir af þessu tagi. Hingað til hafa þessar aðgerðir fyrst og fremst miðað að því að vernda fiskstofnana en þarna erum við að ganga skrefinu lengra og taka ákvörðun um að vernda tiltekin hafsvæði.

Við vitum að umræða um þessi mál er heilmikil, bæði á innlendum vettvangi og ekki síður á alþjóðlegum vettvangi. Við Íslendingar höfum verið í fararbroddi. Við höfum beitt hólfalokunum mjög mikið, m.a. af þeim ástæðum sem ég hef nefnt, svo mikið raunar að margir hafa kvartað undan. Þess vegna er það rangt, sem sumir halda fram, að við séum ekki að beita þessari aðferð við fiskveiðiverndun. Síðan er það svo að það er þróun í þá átt að hafa meiri áhyggjur af hafsbotninum og áhrifum á lífríki hafsins.

Frumvarpið er flutt til þess að koma til móts við þessi sjónarmið, sem ég tel að séu eðlileg. Ég held að um þessi mál eigi að geta skapast víðtæk sátt. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.