135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[17:06]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þessi mál frekar og þakka kærlega fyrir þá fróðlegu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég held að það hafi verið gagnlegt fyrir okkur að hlusta á raddir þessara reyndu skipstjórnarmanna sem þekkja auðvitað mjög vel til á þessu sviði.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði áðan, það hafa orðið miklar breytingar á lífríkinu og við verðum auðvitað vör við það að umræðan, ekki síst úti í hinum stóra heimi, tekur mjög mið af því. Mikið er vísað til þess hvort við veiðum með sjálfbærum og ábyrgum hætti og oft eru uppi spurningar um það hvort við veiðum með veiðarfærum sem valdi skaða í umhverfinu. Við vitum að þessi umræða á alþjóðlegum vettvangi hefur að sumu leyti verið okkur mótdræg en hún hefur líka verið mjög yfirborðskennd vegna þess að hún hefur miðað að því að banna einhver tiltekin veiðarfæri algerlega, en eins og hv. þingmaður vakti athygli á hafa útgerðirnar brugðist við þessari umræðu með því að leggja áherslu á að þróa veiðarfærin á þann veg að ætla mætti að þau leiði til þess að skaðlegu áhrifin á lífríkið verði minni.

Ég held þess vegna að við eigum að svara þeirri umræðu með svipuðum hætti og við gerum í þessu frumvarpi, að búa til lagaramma sem gerir stjórnvöldum kleift að loka á veiðar á hafsvæðum þar sem botnsvæðið er sérstaklega viðkvæmt og það er í raun og veru markmiðið með þessum lögum. Það er hins vegar nauðsynlegt að í lögum af þessu tagi sé reglugerðarheimild fyrir ráðherra. Það væri auðvitað mjög erfitt að koma í hvert skipti fyrir Alþingi með breytingar sem lytu að lokunum þannig að reglugerðin verður auðvitað að vera til staðar. Hins vegar er aðdragandinn að svona lokunum sá, eins og við þekkjum, að við leitum eftir áliti bæði vísindamanna og sjómanna. Sem betur fer hefur það í langflestum tilvikum tekist mjög vel og dæmið fyrir Suðurlandi og Suðausturlandi er gott dæmi um það að bæði sjómenn og vísindamenn geta mjög vel unnið saman að svona hlutum.

Varðandi opnun á hólfum þá er ég alveg sammála því að við verðum við að vera mjög varkár í þeim efnum og ég tel að sjávarútvegsráðuneytið hafi verið mjög varkárt í þeim efnum. Við þekkjum það að vísindamenn okkar eða Hafrannsóknastofnun hefur verið afar íhaldssöm og gætin þegar kemur að því að opna hólf og miklu oftar höfum við í sjávarútvegsráðuneytinu fengið ákúrur fyrir það að vera of treg til að opna hólf sem menn hafa talið fulla ástæðu til að skoða. Það hafa hins vegar orðið dálitlar breytingar eins og við vitum í lífríki okkar sem kalla á það að við séum meira vakandi en áður fyrir þessum hólfum. Breytingar hafa orðið í lífríkinu og ástand sem var kannski fyrir 10 eða 20 árum er ekki endilega það sama í dag. Þess vegna var ástæða til þess og þetta voru alveg réttmætar ábendingar sem komu frá skipstjórnarmönnum um að að skoða inn í þessi hólf. Sumar af þessum skoðunum leiddu til þess að hólfin voru áfram eins og þau hafa verið. Í öðrum tilvikum voru þau opnuð en það var alltaf gert á efnislegum forsendum. Það átti t.d. við um fjöruna fyrir austan Þorlákshöfn sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson talaði um. Þetta hefur verið ágreiningsefni eins og við vitum meðal heimamanna. Margir skipstjórnarmenn á þessum svæðum höfðu hins vegar áhuga á að skoða þetta. Það hafði verið gert áður. Niðurstaðan þá var sú að ekki var ástæða til að opna. Núna var þetta skoðað upp á nýtt og þá kom í ljós að forsendur voru til að opna og þá var auðvitað engin ástæða til að halda þessu svæði lokuðu og koma í veg fyrir að menn gætu nýtt ýsuna. Ég vek t.d. athygli á að sjómenn í Þorlákshöfn hafa bent á að það olli þeim miklu óhagræði, kostnaði og kom í veg fyrir að þeir gætu nýtt möguleika sína að þessu svæði var lokað en ég var mjög staður gagnvart þessu máli í sjávarútvegsráðuneytinu þangað til ég hafði efnislegar forsendur til að opna það.

Það er heilmikil íhaldssemi í þessu máli. (Gripið fram í.) Hún er mikil dyggð. Varðandi breytingarnar á viðmiðunarmörkunum þá vorum við auðvitað að koma til móts við ákveðin sjónarmið. Ég tel að þarna séum við ekki að taka mikla áhættu. Ýsustofninn er stór eins og við vitum og það eru möguleikar á því að nýta hann með þessum hætti. Við erum að gera það við þessar tilteknu aðstæður til þess að koma til móts við hagsmuni sjómanna í landinu og ég held að það að við gerum tímabundnar breytingar á viðmiðunarmörkunum í ljósi aðstæðna núna sé vel réttlætanlegt. Ég vek aftur athygli á því að viðbrögð skipstjórnarmanna, a.m.k. þau sem hafa birst hingað til, eru jákvæð og það á við um fulltrúa t.d. Farmanna- og fiskimannasambandsins en einnig Landssamband smábátaeigenda sem fagnaði sérstaklega þessum breytingum á viðmiðunarmörkunum á heimasíðu sinni þegar þær áttu sér stað.

Virðulegi forseti. Þetta er kannski önnur saga, aðalatriðið er það sem liggur fyrir í þessu frumvarpi. Ég lít svo á að þessu máli hafi verið almennt vel tekið, bæði núna og áður, og vænti þess að um það geti orðið ágæt samstaða að lokum.