135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[17:12]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Það sem ég vildi bæta við í umræðuna um þetta mál — það væri reyndar hægt að hafa talsvert langt mál um það — varðar opnun hólfa sem ráðherra nefndi áðan að ævinlega hefði verið gert að gefnum efnislegum forsendum og þá reikna ég með að hann eigi við að einhverjar fiskifræðilegar forsendur sé á bak við það. Ég tek ekki undir það að öllu leyti. Ég minni á opnun á hólfi úti á Jökultungu á síðasta vetri sem var náttúrlega lokað jafnharðan af því að menn vissu nákvæmlega hvaða fiskur þar var. Það voru engar efnislegar forsendur fyrir því, það var bara þrýstingur frá útgerðarmönnum, aðallega, til að opna það svæði. Ég bendi á svæðið suðvestur af Reykjanesi, Melsekk, eins og það er venjulega kallað. Þar er jafnsmár karfi og verið hefur áratugum saman en það var náttúrlega opnað út af þrýstingi vegna þess að þá voru menn að fara að flaka smákarfa fyrst og fremst á frystiskipum og gekk illa að flaka þann stóra og á þeim tíma var það þrýstingur frá tveim stórum og öflugum útgerðarfyrirtækjum sem varð til að þau voru opnuð. Ég nefni líka að við höfum hiklaust fært til línur sem hafa markað af úthafskarfastofn og heimakarfastofn. Ef svo vill til að við erum ekki búnir með úthafskarfann okkar þá höfum við fært línuna og elt karfann með línunni og fært hana aftur í þeim tilgangi að reyna að klára úthafskarfann áður en hann breytist í heimakarfa þannig að það eru ekki efnislegar forsendur fyrir öllu því sem við gerum.

Þetta er svona til hliðar við þetta frumvarp, en ég vil undirstrika það að ég lít jákvæðum augum á frumvarpið að því undanskildu að ég hef efasemdir um ráðherravaldið. Ég held að erfitt verði að mynda einhvers konar heildarstefnu um verndun lífríkis sjávar og hafsbotnsins nema um það fari fram góð og gagnmerk umræða á Alþingi.