135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[17:16]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er enn fastur á því að það sé ekki til góðs í þessum málaflokki, hvort sem við ræðum um náttúruauðlindir lands eða sjávar, að það sé eingöngu á valdi ráðherra að taka ákvörðun um það. Það þarf að móta um þetta heildarstefnu, það þarf að móta heildarstefnu í verndun auðlinda sjávar, verndun auðlinda lífríkisins og botnsins, eins og reyndar þetta frumvarp kveður á um að ráðherra eigi að hafa vald til að gera og taka ákvarðanir um. En hvernig fer þetta fram, hverjir gera tillögur um verndun svæða? Hver sér um mat á hafsvæðum, hver á að fylgja þessu eftir? Er ætlunin að Hafrannsóknastofnun sjái um þessi mál eða er ætlunin að Fiskistofa eða einhverjar aðrar stofnanir, sem eru kannski ekki til þess bærar að meta áhrif veiðarfæra á botnlagið eða áhrif á lífríki sjávar sem slíks, geri það? Hafrannsóknastofnun hefur hingað til að langstærstum hluta einbeitt sér að fiskstofnum en ekki lífríkinu sem slíku þó að það sé að fá aukið vægi í rekstri stofnunarinnar sem betur fer, ég held að það geti allir verið ánægðir með það.

Það er rétt sem ráðherra segir, það eru jákvæð viðbrögð við þessum hliðarmálum sem við vorum að ræða varðandi ýsustofninn og opnun veiðisvæða. Þau viðbrögð byggjast auðvitað á því að það er afar erfitt fyrir skipstjórnarmann að fara á sjó með skip og 25 til 27 manna áhöfn með þær heimildir að mega veiða 1 til 2 tonn af þorski á hverjum úthaldsdegi. Það er í raun og veru hræðilegt að þurfa að leysa landfestar skips og leggja af stað í slíkt. Þrýstingurinn stafar af því að það er ómögulegt fyrir okkur að róa til fiskjar öðruvísi en fá að veiða hann. En fiskifræðilegu forsendurnar á bak við það eru ekki sterkar.