135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

90. mál
[17:18]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Mér koma nú til hugar stjórnsýsluvinnubrögð og vinnubrögð sjávarútvegsráðuneytisins. Það er út af því að smábátafélag Suðurnesja óskaði eftir því að það yrði virt eins og hefur verið síðustu 30 til 40 ár, eða alla vega frá því ég byrjaði að róa, að á ákveðnum tímum á haustin hefur svæði verið lokað og verið sérstakt línu- og netasvæði í vestur frá Sandgerði. Síðan hefur það stækkað þegar liðið hefur fram á vertíð og 15. nóvember hefur það komið í vestur frá Stafnnesi. Þeir sendu bréf í haust eins og þeir hafa gert á hverju hausti nú síðustu árin. Svarið sem þeir fengu var ljósrit af bréfi sem Útvegsmannafélag Suðurnesja hafði sent þar sem þeir töldu að ekki væri ástæða til að loka þessu svæði fyrir línu og net. Ég hef þetta bréf undir höndum og mér finnst það sorgleg vinnubrögð hjá ráðuneytinu varðandi lokanir eða ekki lokanir. Óskir koma frá ákveðnum hópum en það er ekki hlustað á það. Það er heldur farið eftir tillögum aðila, sem við segjum nú stundum, Einar, hæstv. sjávarútvegsráðherra, að þið sem aðhyllist og verjið þetta fiskveiðistjórnarkerfi séuð einfaldlega strengjabrúður fyrir.