135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[17:26]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Þessar breytingar eru í raun tvenns konar. Annars vegar eru breytingar á ákvæði til bráðabirgða IV við lögin þar sem gert er ráð fyrir því að ákvæðið sem nú er í gildi, og felur það í sér að ekki er innheimt veiðigjald vegna úthafsrækju og rækju sem veidd er á Flæmingjagrunni, — þessi innheimta sem féll niður með lögum og átti að gilda út yfirstandandi fiskveiðiár — nái líka til fiskveiðiáranna 2008/2009. Við vitum að rökin fyrir því að afnema þetta veiðigjald af rækjunni voru skýr. Miklir erfiðleikar hafa verið í rækjuveiðum og -vinnslu og efnahagslegar forsendur til þess að stunda rækjuveiðar hafa varla verið til staðar þó að rækjuveiðin hafi verið aðeins skárri á yfirstandandi ári og síðasta fiskveiðiári en áður og vonandi er það til marks um að rækjuveiðar geti hafist af meiri krafti.

Í annan stað hefur verð á rækju á mörkuðum verið lágt og þess vegna hafa ekki verið fjárhagslegar eða efnahagslegar forsendur til þess að stunda rækjuveiðarnar. Það var ankannalegt að menn voru að greiða veiðigjald af rækjukvóta sem þeir ekki gátu nýtt sér, urðu með öðrum orðum fyrir tvöföldu böli, höfðu annars vegar verið með fjárhagslegar skuldbindingar vegna rækjukvótans og urðu síðan að borga veiðigjald af afla sem aldrei var veiddur. Það er sem sagt lagt til að þetta ákvæði, sem felur í sér að ekki sé greitt veiðigjald af rækjunni, nái líka til fiskveiðiársins 2008/2009.

Að auki er lagt til að næstu tvö fiskveiðiár, þ.e. yfirstandandi fiskveiðiár og næsta fiskveiðiár, verði ekki heldur innheimt veiðigjald í þorski. Við vitum hverjar forsendurnar eru fyrir því. Ákvörðun okkar um að skerða aflaheimildir í þorski niður um þriðjung hefur í för með sér mikinn tekjumissi fyrir útgerðir í landinu. Það er þess vegna ásetningur stjórnvalda að reyna að finna leiðir til þess að draga úr kostnaði í útgerðinni. Það verður ekki bara til hagsbóta fyrir útgerðarfyrirtækin heldur ekki síður fyrir starfsfólkið, hvort sem það er til sjós eða lands, að við lækkum kostnað í þessum greinum. Kostnaðarauki í greininni veltur með einum eða öðrum hætti yfir á annaðhvort kaupendur að afurðunum eða þá sem eru starfandi í greininni. Það er því sameiginlegt hagsmunamál bæði útgerðarmanna og sjómanna að lækka þetta gjald við þessar aðstæður. Ég hef líka tekið eftir því að fulltrúar ýmissa hagsmunasamtaka launþegamegin í sjávarútvegi hafa fagnað því að þetta sé gert vegna þess að þeir hafa talið að veiðigjaldið hefði neikvæð áhrif á afkomu þeirra.

Veiðigjaldið er þannig útreiknað að miðað er við tiltekið tímabil þar sem framlegðin, það sem menn hafa upp í fjármagnsliðina, er skoðuð og síðan er úthlutun aflaheimilda líka skoðuð. Út frá því er veiðigjaldið reiknað út með tilteknum hætti, sem gerð er grein fyrir í lögunum. Það þýddi að á síðasta fiskveiðiári var veiðigjaldið tiltölulega lágt, hafði lækkað talsvert frá árunum á undan vegna þess að afkoman í greininni hafði verið léleg, gengið var allt of sterkt árið 2005. Nú er það hins vegar þannig að árið 2006, sem vigtar mest inn í þetta, var gengið eins og hjá fólki, var veikara, og það hefur þau áhrif að veiðigjaldið hækkar auk þess sem í lögunum er gert ráð fyrir því að veiðigjaldið fari stighækkandi eftir prósentum ár fyrir ár, verði endanlega komið í það horf sem því er ætlað að vera á næsta fiskveiðiári.

Þetta hafði það í för með sér að veiðigjaldið verður á þessu fiskveiðiári að öllu óbreyttu um það bil milljarður kr. en var helmingi lægra og rúmlega það á síðasta fiskveiðiári. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar var sú að til þess að koma til móts við fyrirtækin og þar með starfsfólk þeirra væri skynsamlegt að fella niður veiðigjald af þorskhlutanum. Þetta má segja að hafi verið svipuð grunnprinsipp og við notuðum varðandi rækjuna. Við erum að taka þá fyrir og afmarka þann stofn þar sem heimildirnar eru sérstaklega að dragast saman og það má segja sem svo að þessi aðferð, að innheimta ekki veiðigjald í þorski, komi þá hlutfallslega best út fyrir þá sem eru með mestar aflaheimildir í þorski. Þetta leiðir til þess að veiðigjaldið lækkar um 275 millj. kr. á yfirstandandi fiskveiðiári.

Þetta kallar vitaskuld á lagabreytingu og þess vegna er þetta frumvarp flutt. Lögin eða reglurnar eru hins vegar þannig að innheimt er að 1/3 veiðigjaldið í upphafi fiskveiðiárs, næsti þriðjungur við áramót og svo að lokum síðar á næsta ári. Það þýðir að nú þegar hafa menn greitt hluta af sínu veiðigjaldi og það er gert ráð fyrir að það geti gerst þannig að við næstu innheimtu verði innheimt sem þessu nemur lægri tala eða ef menn eru í þeirri stöðu að hafa greitt meira en sem svarar veiðigjaldinu þegar búið er að draga þorskinn frá fá menn vitaskuld endurgreitt. Hér er að mínu mati um að ræða ágæta aðferð til þess að koma til móts við útgerðirnar sem munu búa við minnkandi tekjur. Þetta er gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að fyrirtæki gefist upp við þann mótbyr sem stafar af því að við erum að draga saman seglin í útgefnum veiðiheimildum sem veldur því að tekjurnar minnka og erfiðara verður að láta enda ná saman.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.