135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:24]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Útgangspunkturinn, virðulegi forseti, er að veiðileyfagjaldið er fyrst og fremst þungur skattur á landsbyggðina. Það er mjög undarlegt að heyra landsbyggðarþingmann mæla því bót að ekki sé í fullri alvöru tekið tillit til þess að mikið vandatímabil er fram undan. Það er mjög furðulegt að heyra slíkt. Þótt einhver hafi komist að samkomulagi um annað við póleruð skrifborð í Reykjavík þá er raunveruleikinn allt annar úti á landsbyggðinni þar sem vandinn blasir við.

Ef við ætlum að koma sjávarbyggðunum út úr þeim brimgarði sem þær munu illu heilli lenda í á næstu missirum verður að taka af fullri alvöru í taumana og ekki gefa tommu eftir. Eitt af því sem á að gera er að hnika til sköttum sem eiga sér enga fyrirmynd gagnvart öðrum í atvinnurekstri á Íslandi.