135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

stjórn fiskveiða.

91. mál
[18:53]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna síðustu yfirlýsingu hv. þingmanns sem felur í sér afdráttarlausan stuðning hans við þetta frumvarp og það er auðvitað mjög af hinu góða. Hv. þingmaður sagði að hann væri þeirrar skoðunar, það kom fram í ræðu hans áðan, að það að leggja á veiðigjald væri til þess fallið að styrkja eignarhald útgerðar á aflaheimildum. Ég er út af fyrir sig ekki sammála því en væntanlega lítur hann svo á að þessi ákvörðun núna, að taka burt veiðigjaldið í þorskinum, veiki eða afnemi með sama hætti væntanlega meint eignarhald útgerðar á þorskinum.

Þess vegna er þetta mjög mikilvæg yfirlýsing sem hér kom fram. Það liggur þá fyrir í þessari umræðu stuðningur bæði formanns Frjálslynda flokksins og talsmanns Vinstri grænna, stuðningur þeirra beggja við það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram, þannig að ég vænti þess að það hljóti góða meðhöndlun og um það megi nást mjög víðtækt pólitískt samkomulag.