135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[19:57]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það væri nú fróðlegt að láta á það reyna í þessum sal þar sem menn væru allir óbundnir hvort ekki væri hægt að ná samstöðu og meiri hluta fyrir því að rífa kvótakerfið upp með rótum (Gripið fram í.) og til gagngerrar endurskoðunar. Ég held að það væri fróðlegt. Ég held að það sé lífsnauðsynlegt að taka á þessum auðlindamálum öllum í ljósi þess sem er að gerast í efnahagslífi okkar og samfélagi.

Hæstv. iðnaðarráðherra þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að ég sé að gerast mjög markaðssækinn þegar vatnsveitur eða rafveitur eru annars vegar, aldeilis ekki. (Gripið fram í.) Það er einhver arfavitlausasta ráðstöfun sem til er að einkavæða vatnsveitur. Um þetta er til fjöldinn allur af skýrslum. Það liggur í fyrsta lagi í augum uppi að einmitt á þessu sviði er engin samkeppni. Þar sem er til staðar fleiri en eitt vatnsveitufyrirtæki í samfélagi sem hefur einkavætt að þessu leyti eins og til dæmis í Frakklandi hafa fyrirtækin bara skipt landinu upp og dæmi eru um að borgum er skipt upp. Það er nákvæmlega sama verð. Ég nefni Marseille, (Iðnrh.: Og rafmagn.) París. Og sama gildir um rafmagnið.

Ég er andvígur því að einkavæða reksturinn af praktískum, pragmatískum ástæðum. Það er þetta sem við erum að leggja til í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði (Gripið fram í: Þið eruð bara að ...) með tillögu sem var rædd hér í byrjun vikunnar, á þriðjudaginn, um að fram fari rannsókn, athugun á afleiðingum einkavæðingar og markaðsvæðingar í grunnþjónustu samfélagsins til að leiða í ljós hvaða afleiðingar hún hefur í raun haft í för með sér. Það er önnur umræða. Þetta er praktískt úrlausnarefni. Þar veljum við þann kost sem er bestur fyrir samfélagið. En hitt er prinsippmál (Forseti hringir.) að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðlindunum.