135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

brottfall vatnalaga.

8. mál
[21:04]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hv. 6. þm. Suðvest. sagði áðan. Það liggur alveg fyrir að við erum í ólíkum stjórnmálaflokkum vegna þess að við höfum ólíka sýn á ákveðnar grundvallarspurningar varðandi það hvernig stjórna eigi þjóðfélaginu. Það er hins vegar svo að markaðshyggja og markaðshyggja er ekki endilega alveg það sama. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt áherslu á mannúðlega markaðshyggju sem er töluvert öðruvísi og öðru marki brennd en t.d. sú sem sjálfstæðismenn hafa lagt til grundvallar á undanförnum árum. Við höfum lagt til grundvallar markaðshyggju þar sem tekið er mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar þó að markaðurinn væri nýttur sem allra best í þágu þjóðarinnar.

Síðan er það spurningin sem lýtur að virðingu Alþingis, virðingu löggjafarstofnunarinnar, að marka lagaramma um auðlindir þjóðarinnar til framtíðar þannig að það megi vera þjóðinni til heilla, ekki til skamms tíma heldur til lengri tíma. Það á að vera verkefni okkar og það á að vera viðmiðun að við sköpum breiða samstöðu um það þannig að við getum lengi búið að þeirri gerð. Það er mikilvægasta atriðið.

Menn hafa velt því fyrir sér hvernig haga eigi eignarráðum yfir auðlindunum og ég segi: Við eigum að mestu leyti og eins og unnt er að hafa eignarhald yfir náttúruauðlindum þjóðarinnar í höndum samfélagsins eða samfélagslegra aðila. Hitt er annað mál hvað varðar framsal til nýtingar, þar hafa komið fram ýmsar hugmyndir sem væri kannski of langt mál að fara út í hér miðað við þann stutta tíma sem ég á eftir.