135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:30]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langaði að drepa hér á fáein atriði í þessari þingsályktunartillögu sem við flytjum, þingmenn Frjálslynda flokksins, og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur gert ítarlega grein fyrir í framsögu.

Ég undirstrika að með tillögunni erum við að leggja til að veiðar úr stofninum verði samkvæmt gildandi aflareglu. Það gæfi 178 þús. tonn ef ekki hefði verið breytt út af þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið, að miða við tiltekna aflareglu, og við erum með tillögunni í raun og veru að segja: Við skulum á næstu árum miða við þessar reglur. Hvers vegna erum við með þessar áherslur? Jú, ég vil draga það fram í nokkrum atriðum sem leiðir okkur til þessarar niðurstöður.

Í fyrsta lagi vil ég þó taka fram að það eru auðvitað merki um stöðu eða horfur í þorskstofninum sem eru þess eðlis að það er ástæða til að hafa áhyggjur af þeim og taka það alvarlega. Mjög nýleg nýliðun á síðustu árum er áhyggjuefni. Lækkandi meðalþyngd og óhagstæð aldurssamsetning hrygningarstofnsins eru allt atriði sem eru þess eðlis að það er ástæða til að hafa varann á sér við nýtingu stofnsins þegar þau eru uppi annars vegar. En við getum ekki fallist á að þessi atriði eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu sem hæstv. ráðherra komst að, að skerða veiðarnar alveg niður í 130 þús. tonn og fara þar með að fullu eftir tillögum fiskifræðinga, ýtrustu tillögum þeirra, og fara í raun og veru lengra en Alþjóðafiskveiðiráðið, ICES, lagði til og vísindamenn þess standa að. Þeir lögðu til að veiðarnar yrðu miðaðar við 152 þús. tonn af þorski.

Það eru 10 atriði sem ég vil draga fram og tiltaka sem ástæður fyrir því að það eigi ekki að fara niður í 130 þús. tonn.

Það er í fyrsta lagi að hrygningarstofninn hefur stækkað á síðustu tveimur áratugum. Hann var árið 2005 sá stærsti frá 1981. Þó að hann hafi aðeins minnkað, eða mat Hafrannsóknastofnunar á hrygningarstofninum sé það að hann hafi aðeins minnkað, frá árinu 2005 er hann engu að síður metinn langtum sterkari og stærri í tonnum talið en hann hefur verið síðustu tvo áratugina. Það er ekki merki um að stofninn sé í bráðri hættu.

Í öðru lagi er stofnvísitala stórþorsks á síðasta ári um 80% hærri en hún var árið 2001.

Í þriðja lagi er viðmiðunarstofn þorsksins sem var mjög lágur um miðjan síðasta áratug miklu hærri en hann var þá og hefur náð um 650 þúsundum tonna í upphafi þessa árs. Hafrannsóknastofnun telur líklegast að ef fylgt yrði óbreyttri aflareglu næstu árin yrði þessi viðmiðunarstofn um 600 þús. tonn árið 2011. Það er ekki merki um hættuástand, virðulegi forseti.

Í fjórða lagi hefur veiðihlutfall þorskstofnsins farið lækkandi. Um aldamótin var veiðihlutfallið af 5–10 ára þorski um 75% en er talið vera um 60% á þessu ári og það mun lækka í 50% fram til ársins 2009 að mati ICES að óbreyttri aflareglu, þ.e. veiðar sem svara 170 þús. tonnum eins og við leggjum til að verði á yfirstandandi fiskveiðiári.

Í fimmta lagi hefur veiðiálagið farið lækkandi. Það var um 40% um aldamótin. Það hefur lækkað niður í 30% nú og það mun lækka niður í 26% að mati ICES árið 2009 verði veiðarnar miðaðar við óbreytta aflareglu.

Í sjötta lagi hefur komið fram að afli á sóknareiningu hefur vaxið frá síðasta ári í netum, og í botnvörpu og línu hafa ekki orðið neinar teljandi breytingar. Þetta er ekki merki um undanhald í stofninum.

Í sjöunda lagi er staðan á rækjustofninum sú sem hefur verið gerð grein fyrir hér fyrr í umræðunni, og ástæðan fyrir slæmri stöðu rækjustofna um allt land er öflugir ýsu- og þorskstofnar í öllum fjörðum. Það er þorskurinn sem er að éta upp rækjustofninn og gerði það t.d. fyrir nokkrum árum svo eftirminnilegt er í Húnaflóa. Þetta er ekki merki þess að stofninn sé við hættuástand.

Í áttunda lagi liggur fyrir að upplýsingar sem aflað er í haustralli benda til þess að þorskstofninn sé stærri en upplýsingarnar sem byggðar eru á vorrallinu.

Í níunda lagi liggur fyrir að meðalþyngd í afla fiskiskipa er að jafnaði hærri en í vorralli. Sem dæmi má nefna að viðmiðunarstofninn sem nú er talinn vera um 540 þús. tonn er talinn 675 þús. tonn ef miðað er við meðalþyngd í afla fiskiskipa en ekki við meðalþyngd þá sem Hafró fær í sínu vorralli. Þarna munar 25% á matinu. Annað dæmi er að hrygningarstofninn er talinn vera 180 þús. tonn í skýrslu Hafró en 240 þús. tonn í skýrslu ICES. Þarna munar 34%.

Í tíunda lagi, virðulegi forseti, sem eru nú ákaflega sterk rök, er ákvörðun sjávarútvegsráðherra sjálfs. Hann gefur út aflaheimildir í 17 tegundum. Í 12 þeirra hundsar hann ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og fer að ráðum hennar aðeins varðandi fimm stofna. Hann fer mjög langt fram úr mati Hafrannsóknastofnunar á því hvað megi veiða úr einstaka stofnum, allt upp í 200%. Ráðherrann sjálfur metur upplýsingar Hafró þannig að þetta sé fremur til viðmiðunar en til ákvörðunar. Það er athyglisvert og á því vil ég ljúka erindi mínu, virðulegi forseti, að það er mat bæði Hafrannsóknastofnunar og ICES að ef veiðar úr þorskstofni næstu fjögur ár verða stundaðar samkvæmt aflareglu muni bæði hrygningarstofn (Forseti hringir.) og viðmiðunarstofn vera svipaðir og þeir eru í dag.