135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki sammála hæstv. ráðherra um að við höfum hjakkað í sama farinu undanfarna tvo áratugi. Tölurnar sem er m.a. að finna í gögnum Hafrannsóknastofnunar benda ekki til þess. Hrygningarstofninn er fast að því tvöfalt stærri á árinu 2005 en hann var árið 1983. Jafnvel þó að menn taki nokkurra ára meðaltöl er engu að síður nokkuð ljóst að stærð stofnsins um þessar mundir er verulega meiri en var fram að þeim tíma, síðustu tvo áratugi.

Við vitum líka að veiðiálag hefur farið minnkandi. Við vitum að veiðihlutfallið hefur farið lækkandi. Við vitum að smáfiskur fer vaxandi, sérstaklega í þorski, eins og skyndilokanir bera með sér og eins og staða rækjustofnsins um allt land ber með sér. Það er ekki hnignandi þorskstofn sem étur upp alla rækjustofna landsins, hann hefur ekki gert það í heila öld en allt í einu á síðustu árum bregður svo við að þessi veiki þorskstofn étur upp hvern einasta rækjustofn hringinn í kringum landið. Það gerist ekki nema vegna þess að þorskstofninn, sem syndir inn í firði og flóa og étur rækjuna, er öflugur, það er ekki vegna þess að hann sé veikur heldur vegna þess að hann er öflugur.

Virðulegi forseti. Býsna mörg teikn eru á lofti um að staðan sé betri en verið hefur á undanförnum árum og áratugum og við eigum ekki að týna okkur alveg í svartsýni í þessum efnum. Ég hugsa að það hefði kannski verið skynsamlegasta ráðið, eins og hér hefur verið bent á, að draga úr loðnuveiðum og sjá hverju það skilaði, því að það er alveg víst að það hefði aukið þyngdina á þorskinum (Forseti hringir.) mjög fljótt.