135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:47]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs um þetta mikilvæga mál og vil taka undir þakkir hæstv. sjávarútvegsráðherra til hv. 9. þm. Norðvest. fyrir málefnalegt innlegg í umræðunni áðan. Mér fannst ágæt rök færð fyrir þingsályktunartillögunni en vandinn er sá að það kerfi sem við höfum komið okkur upp varðandi hafrannsóknir og ráðgjöf um fiskveiðar er þannig að ekki er stætt á neinu öðru fyrir stjórnmálamennina, og skiptir þá engu máli hvaða einstaklingur gegnir embætti sjávarútvegsráðherra, en að fara eftir þessum tillögum. Annað væri óábyrgt. Ég er ekki þar með að segja að ég hafi endilega trú á því að þetta séu réttar tillögur, en það er rétt sem menn hafa sagt, þetta eru bestu tillögurnar sem við höfum, einfaldlega vegna þess að sú vinna sem þar fer fram er sennilega einhver viðamesta vinna sem fer fram á Íslandi við það að rannsaka. Það er enginn annar aðili sem hefur viðlíka aðstæður og Hafrannsóknastofnun til þess að komast að rökstuddri niðurstöðu um það hversu mikið við eigum að veiða.

Í þessu er fólginn gríðarlegur vandi. Við skulum ímynda okkur að það væri bara ein stofnun sem sinnti hagrannsóknum á Íslandi. Þá væru stjórnmálamenn og þátttakendur í hagkerfinu býsna bundnir þeirri niðurstöðu. Ef sú stofnun segði: Nú verðið þið að auka ríkisútgjöldin eða draga úr þeim eða gera þetta eða gera hitt, hækka skatta eða lækka skatta, þá mundu stjórnmálamennirnir segja, rétt eins og þeir segja varðandi Hafrannsóknastofnun: Þetta er besta fáanlega þekking sem við búum við.

Það er reyndar glettilega margt líkt með hagfræðinni og sjávarlíffræðinni. Í báðum tilvikum er um að ræða líkön og líkanagerð þar sem gagna er aflað — í tilfelli hagfræðinnar eru það hagmælingar, vextir eru mældir og fjárfesting o.s.frv., sem fela í sér býsna nákvæma gagnaöflun. (Gripið fram í.) Síðan spá menn með spálíkönum sem eiga að lýsa hagkerfinu og menn hafa gríðarlega þekkingu orðið á þessu sviði, samansafnaða hér á Íslandi og frá öðrum löndum, og samt gengur mönnum alveg hörmulega illa að spá fyrir um þróun hagkerfisins. Ég vil benda á að við erum að finna það út núna árið 2007 að hagvöxturinn árið 2001 hafi verið yfir núll en við héldum lengi að hann væri mínus. Þarna sjá menn hversu erfiðlega gengur að spá, meira að segja í mannheimum þar sem gögnin eru svona nákvæm.

Þá kem ég að því sem ég vildi koma á framfæri. Ég tel að það kerfi að hafa eina ríkisstofnun, eina ríkisrekna stofnun þar sem allar hafrannsóknir fara meira eða minna fram, sé óheilbrigt, óhentugt og óheppilegt. Ég tel takmarkaðar líkur á því að slík stofnun geti skilað skynsamlegri eða réttri niðurstöðu eða eins réttri og mögulegt er. Það er óskaplega lítil vísindaleg umræða eða vísindalegur díalógur á milli þessarar stofnunar og þeirra sem hafa aðra skoðun á fiskveiði eða á fiskveiðiráðgjöf og sjávarlíffræði.

Ég hef því gert það að tillögu minni á opinberum vettvangi að Háskóla Íslands verði fengið það hlutverk að skila til sjávarútvegsráðherra einu sinni á ári tillögu til heildarafla, hversu mikið megi veiða á Íslandsmiðum, á sama tíma og Hafrannsóknastofnun skilar sinni niðurstöðu, þ.e. að Háskólinn hafi fullan aðgang að öllum þeim gögnum sem Hafrannsóknastofnun hefur og þá koma fram tvær tillögur. Þetta getur að vísu verið svolítið óheppilegt fyrir stjórnmálamenn vegna þess að þá þurfa þeir að taka afstöðu á milli þeirra tveggja, því að við erum svolítið varðir af því að geta bara sagt: Þetta er besta fáanlega þekkingin. (Gripið fram í.) Það væri ein leið en hún væri ekkert sérstaklega skynsamleg.

Ég mundi gjarnan vilja sjá meiri umræðu á milli jafningja. Það er ekki hægt að bera saman annars vegar stöðu stofnunar eins og Hafrannsóknastofnunar og hins vegar einstaklinga úti í bæ sem eru að reyna að fást við rannsóknir einir eða hafa skoðun. Öðrum megin er hin stóra vísindastofnun og hinum megin eru allt að því einyrkjar. Þó vil ég hrósa hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir hversu mjög hann hefur aukið framlag til frjálsra hafrannsókna, ég held að það sé mikilvægt og gott innlegg. En ef við viljum fá alvöruumræðu um það sem er að gerast í hafinu kringum Ísland, hvert ástand fiskstofnanna er og hversu mikið við megum veiða af þeim, verðum við að breyta þessu fyrirkomulagi. Við verðum að komast út úr því að hafa bara eina stofnun sem skilar einu áliti og yfir í það að fá jafningja, helst Háskóla Íslands, sem legði fram sínar tillögur byggðar á sömu gögnum.

Ég tel að við gætum aldrei lifað við það kerfi sem við búum við í hafrannsóknum í hagfræðinni, þ.e. í hagspám, við mundum aldrei sætta okkur við það. Ég tel að mikilvægi fiskveiðiauðlindarinnar kalli á það að við grípum til slíkra ráðstafana. Að sjálfsögðu kostar það peninga. Ég hef alltaf verið og mun alltaf vera algjörlega mótfallinn því gjaldi sem var lagt á sjávarútveginn, ég tel það óréttlátt, óviðeigandi og óheppilegt þó að ég beygi mig undir þá niðurstöðu sem er komin í því. Ég mun aldrei í hjarta mínu styðja það, en það væri þá til bóta að taka það gjald og þá peninga sem þar koma í gegn og segja: Við ætlum að bæta þeim peningum við hafrannsóknir af því að þeir peningar sem þangað fara, einhver hundruð milljóna, mundu skila sér margfalt til baka fyrir íslensku þjóðina þegar upp væri staðið á næstu árum og áratugum. Munurinn á því hvort við erum að veiða 130 þús. tonn af þorski eða 230 þús. tonn af þorski á ári er alveg gríðarlegur, ekki bara fyrir þjóðarbúið í heild heldur líka fyrir byggðirnar í kringum allt landið sem eiga svo mikið undir þessari grein. Það er sama hvað við gerum í byggðamálum, það er sama til hvaða ráðstafana og mótvægisaðgerða við grípum í byggðamálum, ef okkur tekst ekki að auka þorskveiðarnar á næstu árum mun allt fara í sömu átt á svo mörgum stöðum í kringum Ísland.

Það er því einlæg ósk mín að okkur takist, og helst sem fyrst á næstu árum, að bæta umhverfið í kringum hafrannsóknir á Íslandi. Ég get tekið undir þær óskir sem hafa komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum.