135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[21:57]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að fá annað tækifæri til að geta hrósað hæstv. sjávarútvegsráðherra því að í fjárlögum þessa árs eru framlögin til togararallsins aukin. Það er verið að bæta í þann þáttinn til að bæta gagnaöflunina. Það skiptir miklu máli hvernig staðið er að henni. Ef Háskóli Íslands kæmi að þessum hlutum gæti myndast umræða um það milli stofnana, Hafrannsóknastofnunar annars vegar og Háskóla Íslands hins vegar, hvernig standa eigi að grunnrannsóknum og vissulega þarf að ræða það líka.

Við skulum ekki gleyma því að innan vébanda Háskóla Íslands er alveg gríðarleg þekking til staðar á sviði líffræði, á sviði reiknifræði o.s.frv. Með því að ná þeirri þekkingu saman á þverfaglegan hátt má búa til það mótvægi sem ég tel að við þurfum að hafa gagnvart Hafrannsóknastofnun.

Hvað varðar fiskifræði sjómannsins skal ég glaður taka undir með hv. þingmanni. Við eigum að sjálfsögðu að nýta þá þekkingu. Ég held ég geti enn á ný talað fyrir munn hæstv. sjávarútvegsráðherra og sagt að vilji sé til þess að gera það. Vandinn felst í því að ekki er ljóst hvernig best er að fara að því. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það eins og ég að þar er ekki einhver ein skoðun uppi. Það þarf að finna aðferðir til þess að kalla þá þekkingu fram, finna út hvernig á að vinna með hana og hvernig á að nýta hana við ákvörðun á heildarafla.