135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:10]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta mál. Ég held að það hafi verið nauðsynlegt að skiptast hér á skoðunum. Því miður er ekki hægt að koma að öllum upplýsingum í svo stóru máli innan þess ræðutíma sem okkur hv. þingmönnum er ætlaður undir þessu formi, þ.e. umræðu um þingsályktunartillögu.

Hins vegar er til alveg aragrúi af upplýsingum sem sýna allt aðra mynd en mynd Hafrannsóknastofnunar. Sjáið þið þessa mynd hérna? Það eru svartar línur sem enda hérna á árinu 1997. Þá var veiðistofninn 530 þús. tonn. Hvernig stóð á því að það var lagður til 200 þús. tonna afli úr þeim veiðistofni, 530 þús. tonnum á árinu 1997, en núna úr 527 þús. tonna afla heildarstofni er aðeins lögð til 130 þús. tonna veiði á þorski úr sömu heildarstofnstærð bæði árin?

Maður spyr auðvitað svona spurninga þegar maður situr uppi með ... (Gripið fram í: Það getur verið önnur aldurssamsetning.) Það kann að vera önnur aldurssamsetning. En ef eitthvað er í aldurssamsetningunni núna þá hefur hún batnað, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vék að. Það hefur bæst í stærri fiskinn og ekki er að sjá samkvæmt skyndilokunum — ég tek það fram — samkvæmt skyndilokunum, ekki samkvæmt tillögum Hafró, að það vanti í yngri árgangana, þvert á móti. Miðað við fjölda skyndilokana sem stefna sennilega í met á þessu ári í þorski þá eru allar líkur á því að uppvaxandi árgangar séu stærri en stofnunin gerir ráð fyrir. Öll rök mæla með því. (Gripið fram í.)

Já, það er nú þetta með endinguna sko, þegar menn fara út í það, og ég kem þá að því sem hv. þm. Björn Valur Gíslason talaði hér um áðan, þ.e. samspil stofna, hver étur hvern og hvenær? Hvað haldið þið að þorskurinn hafi nú aðhafst á síðasta ári? Að éta smáýsu sem aldrei fyrr. Hvað haldið þið að hrefnan hafi verið að éta á síðasta ári og þessu ári? Að stórum hluta smáýsu og þorsk. Það er auðvitað hægt að tala um þetta í gríðarlega stóru samhengi en það yrði hins vegar svo stór umræða að ég mundi ekki treysta mér til að ljúka henni hér á þremur tímum ef ég ætti að fara kirfilega í gegnum hana. En ég mundi hafa mjög gaman að því. Ég tek alveg undir það að það má alveg ræða samspil stofnanna og hvernig þeir hafa áhrif hver á annan. Við sjáum hins vegar að það er, eins og kemur fram í þingskjalinu, beint samhengi milli stærðar loðnustofnsins og vaxtar þorsksins. Það virðist ekki vera hægt að sjá annað út úr því.

Mikið hefur verið talað um að við höfum veitt svo mikið umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á undanförnum árum og til hvers það hafi leitt. Hér er grafið yfir þorskinn. Það eru nú bara 2–4% sem við höfum veitt undanfarin ár umfram tillögur Hafrannsóknastofnunar, þ.e. síðastliðin tíu ár. Þannig að það er alveg rétt sem hv. þm. Björn Valur Gíslason var að benda á áðan. Við höfum ekkert verið að keyra verulega fram úr í ráðgjöfinni í þorskveiðum. Það er því kannski ekki aðalástæðan. Okkur hefur hins vegar ekki tekist að ná þorskstofninum verulega af stað með því að draga úr veiðum og það er aðferðin sem við höfum beitt. Við höfum beitt þessari aðferð — í hvað langan tíma? Alveg frá dögum skrapdagakerfisins — að reyna að ná niður þorskveiðinni til þess að stækka stofninn. Það eru yfir 30 ár án nokkurs sýnilegs árangurs. Hverju var lýst hér í dag? Hvernig lýsti hv. þm. Björn Valur Gíslason stöðu skipstjóra sem núna eiga að veiða? Jú, þeir fá að veiða 2 tonn af þorski á dag. Hvað er það á móti meðalafla togara sem er sennilega 14–16 tonn á dag?

Það er orðið lélegra hlutfall í þessum skrapkjörum en var nokkurn tíma í skrapdagakerfinu. Og menn eiga að búa við þetta allt árið, að veiða 2 tonn af þorski á dag til að halda úti veiðum á hinu sem menn mega veiða. Mönnum þótti það erfitt í skrapdagakerfinu að hafa mjög breytilega prósentu, 5%, 10%, 15% og upp í 25% en þarna hafa menn bara valið um það að halda sig að meðaltali við 2 tonn á dag allan ársins hring. Til hvers hefur þá fiskveiðistjórnin leitt okkur á undanförnum 30 árum? Til þess veruleika sem menn þóttust vera að hafna þegar þeir lögðu af skrapdagakerfið, að vera allt árið í skrapi, ár og síð og alla tíð, og ná ekki neinum árangri í því sem við höfum verið að reyna að stefna að varðandi þorskstofninn.

Hér er hins vegar ýsan þar sem við veiddum að meðaltali 22–25% umfram ráðleggingar Hafró og hvað gerðist þá? Hér er framhaldið? Hún fór bara beint upp í loftið. Við erum að veiða núna yfir 100 þús. tonn undir veiðiálaginu sem við vorum með á ýsustofninn. Það er því langur vegur frá að það sé samhengi á milli þess að keyra niður veiði og ná árangri við að byggja upp stofn. Það er ekkert sýnilegt samhengi þar á milli. Þess vegna horfir maður orðið mikið á það hvar ætið spilar inn í þetta og hvar samspilið milli stofna spilar inn í alla þessa ráðgjöf og vinnu.

Í þessari skýrslu Hafró segir í rækjurallinu að veiðar þorsks á rækjuslóð hafi vaxið undanfarin ár. Ég man ekki hvernig það var í sumar en hæstv. ráðherra veit það kannski. Ég held að það hafi verið einhver afli af þorski en það segir að þorskafli í rækjuralli hafi vaxið. Í netarallinu var miklu meiri afli á síðasta vetri en menn höfðu vanist áður og menn tóku ekki mark á því, menn höfnuðu því að taka mið af netarallinu í þeirri ráðgjöf sem við erum að vinna með núna. Það er fjöldamargt í þessu sem menn hafa ástæðu til þess að athuga og gera athugasemdir við. Þess vegna höfum við komist að þeirri niðurstöðu í Frjálslynda flokknum að ástæðulaust væri að vera að haldin þeirri svartsýni að þorskstofninn væri að hrynja í höndunum á okkur. Hann er ekki að hrynja. Það kann vel að vera að við höfum ekki náð mjög miklum árangri við að byggja hann upp en þó hefur hann aðeins verið á uppleið.

Miðað við skyndilokanir ársins sem eru núna komnar yfir 150 og þar af yfir 80 sem eru lokanir vegna þorsks eða þorsks og ýsu nema hvort tveggja sé þá sýnist mér að stefni í met á lokunum vegna þorsks á þessu fiskveiðiári. Kæmi ekki á óvart þó að við enduðum í 100 sem er meira en við höfum séð í skyndilokunum undanfarin ár, jafnvel þegar við vorum að veiða úr árgöngum sem voru taldir 170 milljón þriggja ára nýliðar að meðaltali sem hafa borið uppi veiðina undanfarin ár og voru viðmiðunarárgangar á árunum 2001–2003.

Stofnmæling að hausti stendur væntanlega yfir núna. Sú upplýsingagjöf mun bætast í þær upplýsingar sem Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðherra hafa í haust til að endurmeta stofninn. Væntanlega mun þá líka koma sýnataka úr veiddum afla í því ralli og sýna þróunina í fallþunganum í ralli, en ég vek athygli á að fallþunginn í togararallinu er annar en fallþungi úr lönduðum afla.

Við höfum líka orðið vitni að því að þorskur gekk yfir til Austur-Grænlands og það hefði verið ákaflega áhugavert að rannsaka það, mjög áhugavert að fara þangað og rannsaka hvaða fiskmagn hefur farið yfir á Grænlandsmið. Ég hef sjálfur haldið því fram að mikið fiskmagn hafi farið yfir á Grænlandsmið haustið 2002 þegar við bjuggum við sunnan- og suðaustanáttir í sex vikur samfellt og hitaskilin gengu langt í norðvestur. Ég veit að hv. þm. Björn Valur Gíslason veit það jafn vel og ég þegar menn byrjuðu allt í einu að veiða þorsk á Dohrn-bankanum og rétt þar vestan við, þriggja, fjögurra, fimm ára gamlan fisk haustið 2002.

Það þarf því ekki að koma á óvart þó að í vor hafi komið tíu ára gamall fiskur. Það passar alveg við það að hann hafi gengið þar yfir og hafi komið til baka inn á hrygningarslóðirnar í vor og menn hafi svo orðið varir við hann aftur á grálúðuslóðinni þegar hann var að ganga á ætislóðirnar við Grænland á nýjan leik. Þorskurinn hefur alltaf gert það, hann gerði það á árum áður. Þegar hann gekk á vertíðarslóðirnar mættum við honum við Víkurálinn og hann var ýmist að fara austur um Strandagrunn eða gekk út í kant með netaförin á sér og stundum með druslurnar hangandi úr tálknunum. Þetta vita menn. Þorskur gengur aftur á sínar ætislóðir þar sem hann hafði viðveru þegar hann var að alast upp. Það þarf ekki segja neinum það. Það eru meira að segja til nokkrar merkingar frá því fyrr á árum, hvernig þorskur sem merktur var við Austur-Grænland kom hingað til lands og þorskur sem merktur var hér á vertíð gekk aftur yfir til Grænlands. Þetta er til í eldri gögnum.

Síðan uppgötvuðum við það í sumar samkvæmt upplýsingum frá Hafrannsóknastofnun að stofnunin telji að menn hafi orðið varir við þorskseiði mun norðar og vestar en þeir hafa áður gert. Ég skal ekki segja hvort svo er en það voru alla vega fréttir um það í sumar að menn hefðu orðið varir við útbreiðslu þorsks þó nokkuð langt norður af landinu.

Við höfum búið við breytingar á sjávarhita á undanförnum árum, það er geysilega margt að breytast hjá okkur. Það er hins vegar svo að samfara auknum sjávarhita þarf þorskurinn að éta meira til að þrífast, hann brennir meiru. Að öllu samanlögðu teljum við í Frjálslynda flokknum að mörg rök séu fyrir því að leggja fram þessa tillögu til þingsályktunar til umræðu í þinginu og til meðferðar í sjávarútvegsnefndum um að auka megi við þorskveiðarnar á þessu fiskveiðiári án þess að menn séu að taka neina verulega áhættu af því að þorskstofninn sé að hrynja í höndunum á okkur. Það er ekki svo.

Þar fyrir utan vil ég enn á ný vekja athygli á því að það verður afar erfitt að framkvæma fiskveiðarnar á Íslandsmiðum á þessu fiskveiðiári með svo lítinn þorsk sem sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að veiða, 130 þús. tonn, og eiga að veiða hitt, allar hinar tegundirnar. Það verður afar erfitt. Mér er nær að halda að úr þeirri vegferð allri verði akkúrat engin friðun þegar upp verður staðið, ég segi það alveg eins og ég meina það. Ef menn þurfa að framkvæma veiðarnar með þessum hætti mánuðum saman og út allt árið með ekki meiri þorskafla og ætla sér að reyna að veiða annað sem er saman á miðunum eins og ýsa og þorskur, ufsi og þorskur, karfi og þorskur og fleiri fisktegundir þá munu menn lenda í vandræðum. Menn munu lenda í vandræðum með aflasamsetninguna og við vitum alveg hvað menn neyðast til að gera ef svo kemur upp. Þess vegna er vafasamt að svona mikill niðurskurður verði til nokkurrar friðunar eða uppbyggingar á þorski. Og svo er hitt: Ef við hefðum bara séð það á undanförnum 30 árum að aðferðin við að skera niður þorskveiði hefði sveiflað þorskstofninum mörgum sinnum upp í veiði sem gæfi okkur 400 þúsund tonn og við hefðum búið að henni í þó nokkur ár, svo hefði kannski komið slakur árgangur og þá hefðum við hægt á okkur og hann hefði aftur rokið upp. Þetta hefur bara ekki gerst. Við höfum ekki náð þessum árangri að byggja upp þorskstofninn með því að skera niður veiði. Ég vek athygli á því að ýsustofninn stækkaði sem aldrei fyrr undir miklu veiðiálagi smábátanna. Það var auðvitað vegna þess m.a. að sjór hlýnaði í kringum allt land og uppvaxtarsvæði ýsunnar ekki bara tvöfaldaðist heldur þrefaldaðist þegar öll norðurlandsmiðin bættust við þar sem lítið hafði sést af ýsu í mörg ár.

Með hlýnandi sjó leitar þorskurinn meira til norðurs þannig að það er ekkert undarlegt þó að vart verði við hann í rækjurallinu, það er mjög eðlilegt að þorskurinn leiti norður í kantana. Þess vegna held ég að menn eigi að taka mark á því þegar svo mikið veiðist af þorski að það er vaxandi afli í rækjurallinu í mörg ár og menn eigi að leggja það með sér í gagnaöflunina.

Ég vænti þess, hæstv. forseti, að umræðan leiði til þess að rökræðan verði tekin mjög djúpt í hv. sjávarútvegsnefnd og að þau viðbótargögn sem hæstv. ráðherra mun fá í haust, eins og úr haustrallinu, eins og um fallþungann og aðrar þær rannsóknir sem væntanlega verða stundaðar í haust sem gætu gefið vísbendingar í aðra átt, m.a. úr lönduðum afla. Ég vænti þess að út úr því geti komið sú skynsamlega niðurstaða að ástæða sé til að auka við þorskaflann og það sé engin hætta á ferðum að gera það. Það væri auðvitað besta mótvægisaðgerðin.

Orð hæstv. sjávarútvegsráðherra á sínum tíma um að það komi ekkert í staðinn fyrir 60 þús. tonn af þorski eru alveg rétt. Það kemur ekkert í staðinn fyrir það í sjávarútvegsbyggðunum nema þorskur. Við getum hins vegar dregið verulega úr þeim áhrifum á atvinnu og tekjur fólks með því að auka við þorskveiðina þó að við förum þar ekki upp í háar hæðir heldur nálgumst eingöngu þá (Forseti hringir.) veiðireglu sem verið hefur í gildi á undanförnum árum, hæstv. forseti.