135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:28]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég spurði hv. þingmann var sú að ég vildi reyna að skilja það sem hann var að segja. Mér fannst hann vera kominn í mótsögn við sjálfan sig en nú segir hann að það beri að skilja hann þannig að hann telji að þorskstofninn sé í betra ásigkomulagi en Hafrannsóknastofnun telur.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað skiptir það mestu máli fyrir okkur eða a.m.k. mjög miklu máli að gæta þess að fæðuframboðið sé í lagi. Þess vegna höfum við sýnt mikla íhaldssemi varðandi útgáfu á loðnukvóta. Samkvæmt öllum reglum hefðum við átt að gefa út loðnukvótann í júnímánuði í sumar. Ég ákvað að gera það ekki og fresta því núna til haustsins til þess m.a. að tryggja betra fæðuframboð fyrir þorskinn. Ég tel því að ég hafi komið til móts við það fyrir nú utan það að ég beitti mér fyrir því strax haustið 2005 að draga mjög úr flottrollsveiði, banna stór hafsvæði fyrir flottrollsveiði, til þess m.a. að koma til móts við þetta sjónarmið vegna þess að ég viðurkenni að það skiptir mjög miklu máli og mun auðvitað skila sér, vegna þess að það er áhyggjuefni að þorskstofninn hefur verið að léttast (Forseti hringir.) og léttist á milli ára.