135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:34]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi togararallið þá er það einfaldlega þannig að menn hafa haft á því áhuga í mörg, mörg ár að færa þar til togstöðvar eða bæta við togstöðvum miðað við þá reynslu sem fiskimennirnir upplifa, því að reynslan var jú notuð á sínum tíma til að setja út helminginn af togunum á árunum 1984 og 1985 á þeirri reynslu sem þá var til staðar. Ég vona að reynsluheimur hv. þingmanns sé þannig að hann breytist á milli ára, menn taki mið af lífinu sem þeir eru að fást við. (Gripið fram í: Maður reynir það.) Já, ég vona það.

Það gerum við fiskimennirnir, tökum mið af lífinu sem við erum að fást við og þegar við sitjum í stólnum í brúnni í 300 daga á ári og horfum á lóðningar og fisk þá taka menn mið af því og leggja út af því. Ef hv. þingmaður hefur upplifað það svo að hér hafi eingöngu verið rætt um hörmungar þá hefur hann ekki upplifað mikið af þeim um ævina.