135. löggjafarþing — 8. fundur,  11. okt. 2007.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2007/2008.

5. mál
[22:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Grunnurinn að þeirri fiskveiðiráðgjöf sem Hafrannsóknastofnun veitir felst í stofnstærðarmatinu og um stofnstærðarmatið fjalla miklu fleiri vísindamenn en einungis þeir sem vinna hjá Hafrannsóknastofnun. Ég vil nefna Guðrúnu Marteinsdóttur og Kristján Þórarinsson sem vinna á öðrum stöðum og hjá öðrum stofnunum. Allir þessir aðilar eru sammála um að stofnstærðarmatið sé nokkuð rétt og óumdeilanlegt. Þetta er mjög mikilvægt mál.

Frummælandi, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, fer hér um víðan völl og teiknar þetta mál upp sem mjög einfalt mál og að það séu einfaldar lausnir á þessu máli. Við hin viljum fara af meiri varúð í þetta.

Það er áhugavert að lesa í greinargerð þegar Magnúsi Þór Hafsteinssyni, hv. fyrrverandi þingmanni og varaformanni Frjálslynda flokksins, er eignað það að hafa uppgötvað að ástand loðnustofns hafi eitthvað með ástand þorskstofns að gera. Það er náttúrlega eitthvað sem fiskifræðingar eru búnir að nota til margra ára, (Forseti hringir.) tuga ára, sem viðmið og einmitt á þeirri forsendu hefur verið dregið úr loðnuveiðum og þær endurskipulagðar.