135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

tilraunaveiðar í Ísafjarðardjúpi.

[15:06]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er gott að þessum málum var hreyft, full ástæða til þess. Hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp fyrir helgina um viðhald viðkvæmra hafsvæða og breytingin átti að lúta að því að styrkja heimildir ráðherra til að vernda viðkvæm hafsvæði.

Ég tek undir það sem sá ræðumaður sem hóf þessa umræðu, hv. þm. Björn Valur Gíslason, sagði áðan, að það er engin ástæða út af fyrir sig til að amast við tilraunum með veiðarfæri og veiðarfæragerð. Það er sjálfsagt mál. En að þurfa sérstaklega að velja innfirði eða svæði sem beinlínis hafa á undanförnum árum verið nýtt af smábátum til að reyna að halda úti veiðum þegar ekki gefur á dýpri mið finnst mér afar sérstakt, sérstaklega í ljósi þess að það er svæði út af Hornbanka sem menn, einkum togaraskipstjórar, hafa sóst eftir að fá að veiða á. Þar hefði verið tilvalið að stunda þessar veiðar úr því að þær þurfti að stunda á einhverju öðru svæði en þar sem veiði fór almennt fram, stunda þær tilraunaveiðar innan þess hólfs á Hornbankasvæðinu. Þá hefði líka fengist mynd af því hvaða ýsa var þar á ferðinni og hversu stór hún var upp á það hvort þar mætti opna veiðar fyrir togara almennt á þessum haustmánuðum. Sú aðferð að hleypa öflugum togara inn um allt Ísafjarðardjúp til að toga þar á slóð sem almennt hefur verið stunduð af smábátum er forkastanleg. Ég átta mig alls ekki á því á hvaða vegferð ráðherrann er.