135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:45]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít það alvarlegum augum að staðan í smávöruversluninni er mjög víða þannig að það er erfitt að fá fólk til starfa og sveitarfélögin hafa veitt undanþágu fyrir því að unglingar afgreiði í verslunum. Því miður er í mörgum verslunum enginn til staðar eldri en 18 ára til að afgreiða og þá er verið að brjóta lög. Þetta má kanna alveg sérstaklega en ég sé ekki að í einni svipan verði ástandið í smávöruversluninni bætt þannig að það verði hægt að fá 20 ára og eldri til þess að afgreiða. Ég vil bara að hv. þingmaður hafi þetta í huga.

Í dag er það staðreynd að það er mikið forvarnagildi eingöngu í því fyrirkomulagi sem við höfum. Við höfum sérstakar verslanir ÁTVR sem ÁTVR rekur sjálf eða hefur fengið aðra til að reka. Þar eru fullorðnir einstaklingar við afgreiðslu og þess er gætt að varan sé afmörkuð og seld alveg sérstaklega þannig að þar gilda önnur lögmál en í smásölunni. Ég vil að það komi fram hér við upphaf að ég tel að það verði að líta á sölu á tóbaki eins og hún er og að framkvæmd þeirra skilyrða sem sett eru við söluna á tóbaki megi í sjálfu sér alveg yfirfæra á létta áfengið og bjórinn.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki lesið sér til um það að aukið aðgengi að léttvíni og bjór auki drykkju hjá unglingum. Ég vil einnig spyrja hann hvort hann hafi engar áhyggjur af þeirri þróun sem hefur verið hjá ungmennum í dag og þá líka fullorðnum hvað varðar aukna áfengisdrykkju og fíkniefnaneyslu í kjölfarið.