135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:11]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er fjallað um frumvarp til laga um breytingu ýmissa laga og ákvæða varðandi sölu áfengis og tóbaks. Menn hafa á því skiptar skoðanir og það er hið besta mál. En hv. þm. Ögmundur Jónasson vænir flutningsmenn frumvarpsins um að ganga erinda einstaklinga úti í bæ og þá væntanlegra Bónusmanna og Hagkaupsmanna.

Herra forseti. Ég frábið mér slíkan málflutning á hinu háa Alþingi. Algjörlega. Menn geta skipst á skoðunum og verið ósammála um sitt lítið af hverju. En slíkur málflutningur er hvorki hv. þm. Ögmundi Jónassyni né öðrum sem hér hafa kallað fram í til framdráttar á nokkurn hátt. Menn skulu takast á um það sem skiptir máli en að voga sér slíkt er í mínum huga, hæstv. forseti, Alþingi til minnkunar og þingmönnum til minnkunar.

Ég styð þetta frumvarp einfaldlega vegna þess að ég treysti fólki. Ég treysti fólki til að velja það sem það vill kaupa hvort heldur það er í matvöruverslun eða annars staðar. Ég þekki þá sem misnotað hafa þessa vöru. Það hefði ekki breytt neinu hvort þeir nálguðust hana í matvöruverslun eða annars staðar. Aldeilis ekki.

Ég frábið mér líka að því sé haldið fram að með því að styðja frumvarp til laga með þessum hætti rýri menn forvarnastefnu almennt. Mér er algjörlega hulin ráðgáta hvernig menn geta talað með þeim hætti og neitað að takast bara á við grundvallaratriðin. Menn eru með eða á móti (Forseti hringir.) og það er í lagi.