135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:20]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Á þingferli mínum hef ég oft dáðst að því hvað hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur verið málefnalegur í umræðum í þingsal. En hv. þingmanni tókst ekki mjög vel upp í ræðu sinni hér. Hann reyndi, að mínu mati, að gera lítið úr tillöguflutningi þeim sem hér er til umræðu og gerði mönnum upp þær skoðanir að þeir væru að ganga erinda einhverra aðila úti í bæ. Hann spurði hverra hagsmunum við flutningsmenn þessa frumvarps værum að þjóna. Ég get alveg svarað því, hv. þingmaður. Við erum að þjóna hagsmunum almennings og við erum að þjóna hagsmunum frjálsrar verslunar í landinu.

Ég vil benda hv. þingmanni á að fyrir liggur hver Gallup-könnunin á fætur annarri sem sýnir að meiri hluti þjóðarinnar er sammála flutningsmönnum þessa frumvarps, þ.e. að ráðist verði í þessar breytingar. Ég vil óska eftir því að hv. þingmaður nálgist þetta mál á málefnalegri hátt en hann hefur gert, á annan hátt en þann að saka okkur flutningsmenn frumvarpsins, sem komum úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Framsóknarflokki, um það að ganga erinda einhverra manna og sérstaklega var þar nefnt fyrirtækið Bónus. Það var eins og hv. þingmaður væri með Bónus á heilanum. Hefur hv. þingmaður eitthvað á móti því ágæta fyrirtæki sem ég hugsa að hafi náð fram meiri kjarabótum fyrir launþega þessa lands en mörg verkalýðsfélögin? En gott og vel. Væri afstaða hv. þingmanns önnur ef Bónus væri ekki til? Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega?