135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:28]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri umræðu sem nú er um áfengismál í landinu. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta er viðkvæmt mál. En það er hins vegar löngu tímabært að við getum rætt þessa hluti af yfirvegun. Ég vil líka taka fram, þar sem ég er einn af flutningsmönnum þessa máls og hef stutt það lengi, að það eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um efnisinnihald frumvarpsins og kannski ekki síst innan míns þingflokks, svo ég taki hann sem dæmi.

Ég tala hins vegar fyrir því sjónarmiði að við verðum að horfa gagnrýnum augum á stöðu mála. Hvernig er staðan? Íslendingar búa við eitt hæsta áfengisverð í heimi, háan áfengiskaupaaldur og takmarkað aðgengi að áfengi í gegnum sérstakar ríkisverslanir. Öll þessi skref hafa verið stigin með það að leiðarljósi að vinna gegn misnotkun áfengis.

Reynslan sýnir hins vegar að Íslendingar fara síst betur með áfengi en aðrar þjóðir og í raun þvert á móti. Þeir sem halda því fram að það sé ábyrgðarlaust að tala um breytta áfengisstefnu verða að geta svarað því hvaða tilgangi núverandi stefna þjónar og hvort þeim tilgangi sé náð.

Kallað hefur verið eftir gögnum í þessari umræðu. Ég vil vísa í skýrslu nefndar dómsmálaráðherra frá árinu 2000 þar sem m.a. sátu fulltrúar frá landlækni, frá samtökunum Heimili og skóli og frá heilbrigðisráðuneytinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það kemur á óvart að þrátt fyrir þessa lágu heildarneyslu virðast áfengisvandamál óvíða vera meiri en á Íslandi. Hvergi í Evrópu er annað eins framboð á meðferð fyrir áfengissjúka og hvergi hefur jafnstór hluti einnar þjóðar farið í einhvers konar meðferð vegna misnotkunar áfengis.“

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Reynsla okkar af breytingum í frjálsræðisátt á áfengislöggjöfinni hefur ekki verið sú að þær leiði til aukinna áfengisvandamála. Bjórinn hafði ekki þær ógnvekjandi afleiðingar sem spáð hafði verið og neyslan jókst ekki eins mikið og spáð hafði verið fyrir um.“

Og annar kafli úr þessari skýrslu, með leyfi forseta:

„Spurningin er hvort hið takmarkaða aðgengi geti mögulega leitt til þess að drykkjan verði meiri og alvarlegri þegar hún fer fram en fylgi ekki drykkjusiðum annarra Evrópuþjóða.“

Þetta er gríðarlega mikilvægur punktur að mínu mati. Ég er að vitna í skýrslu nefndar á vegum dómsmálaráðherra frá árinu 2000 þar sem m.a. sátu fulltrúar frá landlækni, fulltrúar frá samtökunum Heimili og skóli og fulltrúar frá heilbrigðisráðuneyti. Þetta er þvert á það sem komið hefur fram hjá sumum hv. þingmönnum.

Eftir stendur að núverandi stefna skilar ekki árangri. Við verðum að geta svarað hvaða tilgangi núverandi stefna þjónar og hvort þeim tilgangi sé náð. Við þurfum einnig að svara því af hverju við Íslendingar ættum að þurfa að hafa allt öðruvísi og dýrara en annars staðar á jörðinni. Af hverju þurfa Íslendingar að búa við eitt hæsta matvælaverð í heimi, eitt hæsta bensínverð í heimi, eitt hæsta lyfjaverð í heimi og eitt hæsta áfengisverð í heimi? Sérstaklega í tilfelli áfengisins er augljóst að tilganginum er ekki náð. Ástandið er síst verra í öðrum löndum en það er hér þegar litið er til áfengismála. Hátt verð á áfengi og ríkiseinokun skilar ekki betri neyslu eða minni misnotkun. Opinber neyslustýring í gegnum verðlag og takmarkað aðgengi virkar ekki.

Mig langar líka að draga það fram að við erum með eina hæstu sykurskatta á gosdrykkjum í heimi en samt er neysla gosdrykkja hvað mest á Íslandi. Ef menn vilja nota verðlag til þess að stýra neyslu þá blasir við öllum sem það vilja sjá að verðlagið hefur ekki gert það á Íslandi. Það blasir að sama skapi við að í öðrum löndum þar sem verðið er mun lægra og aðgengið annað er neyslan ekki verri. Það þarf því að rökstyðja hátt verð og takmarkað aðgengi með öðrum rökum að mínu mati. Það eru einfaldlega ekki tæk rök að tala um verð sem neyslustýringartæki.

Herra forseti. Það er ofneysla áfengis sem er vandamálið, ekki endilega neyslan. Það eru allir sammála um að við eigum að berjast gegn ofneyslu og misnotkun. Ég geri mér grein fyrir því að áfengi fylgja vandamál. En samkvæmt fréttum fara 80 þúsund Íslendingar í ríkið, í vínbúðina, í hverri viku.

Við flutningsmenn þessa máls höfum verið vændir um að ganga erinda einhverra stórfyrirtækja. Ég vil eins og aðrir flutningsmenn vísa slíkum málflutningi algjörlega á bug. Við erum að verja hagsmuni almennings, þessara 80 þúsund Íslendinga sem fara í hverri einustu viku í ríkið. Það er eins og sumir þingmenn hér í salnum og andstæðingar þessa frumvarps átti sig ekki á þessu. Ég vil líka draga fram að samkvæmt nýlegri skoðanakönnun frá Gallup vilja 64% þjóðarinnar lækka áfengisgjaldið. Ég veit ekki hvaða þjóð hv. þm. Ögmundur Jónasson tilheyrir en hann er í engum tengslum við þann fjölda sem lítur á áfengi sem hluta af neyslu sinni.

Ég tel að við eigum að vinna gegn fíkninni með öðrum hætti. Þar gegna forvarnir lykilhlutverki. Við virðumst ekki geta læknað drykkjusýki með háu áfengisverði og takmörkuðu aðgengi að áfengi. Hið háa verðlag getur jafnvel aukið hörmungarnar hjá þeim sem verða áfengi að bráð. Ég hef þá skoðun að alkóhólistinn muni alltaf kaupa sér ölkippuna hvort sem hún kostar 1.200 kr. eða 800 kr. Við vinnum ekki gegn sjúkdómum með háu verðlagi og takmörkuðu aðgengi.

Herra forseti. Haldlagt áfengi hefur sömuleiðis aukist mikið. Árið 2006 voru t.d. teknir 5 þúsund lítrar af bjór en árið 2003 einungis 1.500 lítrar. Samkvæmt upplýsingum frá tollgæslunni jókst haldlagt sterkt áfengi um 30% á árunum 2002–2003. Heimabrugg er sömuleiðis vandamál á Íslandi. Samkvæmt könnun IBM fyrir Samtök verslunar og þjónustu, sem gerð var í desember 2003, neytti tæpur fjórðungur landsmanna heimabruggs síðastliðna 12 mánuði. Það eru um það bil fimm verslanir á höfuðborgarsvæðinu sem selja efni til víngerðar en heimabrugg og smygl er ein af afleiðingum hins háa áfengisverðs og takmarkaðs aðgengis að áfengi. Að sjálfsögðu eru allir sammála um að ekki er æskilegt að fólk sé að drekka heimabrugg eða smygl. Ég tel því tíma vera kominn til að gera nauðsynlegar breytingar á sölufyrirkomulagi á léttvíni og bjór hér á landi. ÁTVR hefur nú þegar stigið stór skref til að bæta aðgengi og opnunartíma að verslunarstöðum sínum og því hefur stofnunin sjálf fyrir löngu yfirgefið markmið um takmarkað aðgengi.

Ekki er heldur sá munur á ríkisstarfsmönnum og öðrum launþegum til staðar að það réttlæti að þeim fyrrnefndu sé treyst til að selja áfengi en hinum ekki. Í því sambandi má benda á að almennum launþegum og einkaaðilum er nú þegar treyst til að selja áfengi á vínveitingastöðum og hægt er að nálgast áfengi þar nánast allan sólarhinginn. Víða hjá ÁTVR úti á landi hefur verið gerður samningur við einkaaðila einmitt um söluna, sem hv. þingmenn, andstæðingar þessa frumvarps, sjá allt til foráttu.

Ekki hefur verið sýnt fram á að þær þjóðir sem búa við ríkiseinokun á smásölu áfengis meðhöndli áfengi betur. Þvert á móti bendir margt til þess að notkun áfengis sé verri í löndum sem búa við ríkiseinokun á sölu áfengis og þurfa Íslendingar ekki að leita langt yfir skammt í þeim efnum. Til lengri tíma má telja að með breytingu í rétta átt verði viðhorfsbreyting gagnvart áfengi og neyslu til hins betra. Mér finnst líka sérkennilegt að hér standi hv. þingmenn og fagni fjölbreytni í áfengissölu víða um land í einu orði en sjái því allt til foráttu að fólk hafi aðgengi að þessari gríðarlegu fjölbreytni.

Ég tel rétt að framselja einkaleyfi á sölu á bjór og léttvíni en ekki á sterku víni. Neysla á bjór og léttvíni verður að teljast æskilegri en neysla á sterku víni og mun umrædd breyting beina neyslunni í þá átt. Einnig verður að telja það líklegra að meiri vilji sé til að stíga lítil skref frekar en stór í þessum efnum.

Þá tel ég ljóst að umrædd lagabreyting mun m.a. hafa þau áhrif að samkeppni í sölu áfengis mun aukast um allt land. Á þeim stöðum þar sem einungis er ein áfengissala á vegum ríkisins mun útsölustöðum væntanlega fjölga. Verði þessar breytingar á lögum gerðar mun það einnig koma til móts við þá mýmörgu staði á landinu þar sem enga áfengissölu er að finna. Síðast þegar ég vissi voru einungis þrjár vínbúðir á öllum Vestfjörðum. Enga vínbúð er að finna á Eyrarbakka, Njarðvík, Bolungarvík, Ólafsfirði, Súðavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Sandgerði, Skagaströnd, Tálknafirði, Bíldudal, Eskifirði, Flateyri o.s.frv.

Breytingin mun sömuleiðis styrkja þær verslanir sem eiga undir högg að sækja á landsbyggðinni. Þær verslanir munu þá geta boðið upp á nýja vöru. Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er hins vegar ekki gert ráð fyrir að ÁTVR verði lagt niður heldur að ÁTVR hafi áfram rétt á smásölu á áfengi.

Með samþykkt þessarar lagabreytingar mun smásala bjórs og léttvíns í hefðbundnum verslunum, svo sem matvöruverslunum, þurfa að uppfylla ströng skilyrði viðkomandi sveitarstjórna. Samkvæmt IV. kafla áfengislaga, nr. 75/1998, veita sveitarstjórnir leyfi til áfengisútsölu og geta bundið leyfið skilyrðum, svo sem um staðsetningu verslunar, afgreiðslutíma og önnur málefnaleg atriði. Dómsmálaráðherra getur kveðið nánar á um hámarksafgreiðslutíma og önnur sérstök skilyrði varðandi smásöluleyfið í reglugerð.

Þar sem markmið frumvarpsins er alls ekki að auka aðgengi ungmenna að áfengi gerum við að sjálfsögðu þá kröfu að aldursmörk þeirra sem afgreiða og selja áfengi fylgi áfengiskaupaaldri eins og nú er gert varðandi tóbak. Ég tel að brot á reglum og skilyrðum söluleyfis skuli litin alvarlegum augum og geti leitt til leyfissviptingar og jafnvel sekta.

Herra forseti. Ég álít að lagabreyting í þessa átt sé löngu tímabær. Við verðum að tryggja fullorðnu fólki venjulegan aðgang að löglegri neysluvöru en að sama skapi eigum við að stunda öflugt forvarnastarf og berjast gegn hvers konar misnotkun. Við eigum ekki að auka möguleika unglinga til drykkju, við eigum að taka fast á slíku. Miklu fastar en nú er gert.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að núverandi ástand sé ekki nógu gott. Við verðum því að líta gagnrýnum augum á stöðu mála eins og hún er nú. Ég veit að áfengismálin eru umdeild og við þurfum að fara varlega. En að sjálfsögðu hefði ég ekki þá skoðun sem ég er að verja hér ef ég teldi að hún mundi auka á hörmungar og skaða.