135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:41]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvar við ræðu mína. Eins og ég gat um taldi ég rétt að við ættum að auðvelda aðgengi að léttvíni og bjór þar sem sú neysla ætti að teljast æskilegri en neysla á sterkum vínum. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við eigum að skilja sterka vínið eftir. Ég tel líklegra að meiri vilji sé til þess á þinginu að stíga lítil skref en stór. Það skiptir líka miklu máli að við getum metið reynsluna af breytingum af þessu tagi.

Ég er ekki sammála þeirri skoðun hv. þingmanns að þjónustan muni skerðast. Eins og ég gat um áðan er ég sannfærður um að þjónustan muni batna. Fleiri staðir munu geta selt áfengi. Það verður hægt að selja og kaupa áfengi á stöðum þar sem ekki má finna neina vínbúð og það eru fjölmargir staðir víða um land þar sem slíkt er ekki fyrir hendi. Ég tel einnig að þetta muni styrkja verslun á viðkomandi stað þar sem verslanir í hinum dreifðari byggðum landsbyggðarinnar fá nýja og vinsæla vöru.

Við megum ekki gleyma því að áfengi er vinsæl vara. Áttatíu þúsund manns fara í ríkið í hverri einustu viku og ekki er það fólk allt að misnota áfengi þó að sú hætta sé að sjálfsögðu fyrir hendi. En við eigum að vinna gegn misnotkuninni með öðrum hætti en nú er gert. Ég er sannfærður um að þetta mun ekki skerða þjónustuna og ég held að það skipti máli að við tökum frekar minni skref en stærri þegar um jafnviðkvæm og umdeild mál og áfengismálin er að ræða.