135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:45]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef raunin er sú að þjónusta gagnvart fólki muni skerðast vegna þessa frumvarps, ef það verður samþykkt óbreytt, ætti þá ekki með sömu röksemdum að stuðla að því að ríkið ræki hér venjulega matvöruverslun eða raftækjaverslanir fyrst ríkið er í svo góðu ásigkomulagi til þess að styrkja fjölbreytni og mikið úrval? Ég tel svo ekki vera, þess vegna erum við ekki með ríkisverslanir í matvöru, raftæki og annað og ég held að hið sama eigi við um léttvín og bjór.

Ég er bara ekki tilbúinn til að taka skrefið til fulls. Eins og ég segi tel ég að neysla á léttvíni og bjór sé æskilegri en á sterku áfengi. Ég tel að það sé líklegra að þetta frumvarp fari í gegn eins og það er frekar en ef við færum alla leið.

Það er margs konar fyrirkomulag úti í hinum stóra heimi, m.a. í Evrópu þar sem eru mismunandi reglur um aðgengi hvort sem litið er til sterks víns eða létts. Það er auðveldara í mörgum löndum að nálgast bjórinn og léttvínið en sterkara vínið. Það er með þeim röksemdum sem ég hef talið hér upp þannig að þjóðir hafa tekið það skref sem ég hef talað fyrir um að gera greinarmun á léttvíni og bjór annars vegar og sterku víni hins vegar. Þess vegna hef ég þessa skoðun, hv. þingmaður.