135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:02]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil aðallega fjalla um það frumvarp sem hér liggur fyrir, um breytingu ýmissa lagaákvæða sem varða sölu áfengis og tóbaks, út frá forvarnasjónarmiðum en ekki eins og mér hefur heyrst á þeim sem hafa talað fyrir frumvarpinu og meðflutningsmönnum frá rekstrarlegu sjónarmiði, út frá aukinni frjálshyggju og samkeppnissjónarmiðum, lægra verði til neytenda, betra og þægilegra aðgengi fyrir neytendur að nálgast þessar vörur. Ég tel bæði þau sjónarmið að líta á þetta sem hverja aðra neysluvöru og betra aðgengi og lægra verð, vega mjög létt miðað við forvarnagildi þeirra ákvæða og laga sem við höfum í dag. Ég tel að þau rök sem fram eru færð vegi mjög létt miðað við forvarnagildi núverandi lagaramma sem við höfum og lagaframkvæmdar.

Ég vísa til þess að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sinnt rannsóknum á þessu sviði hvað varðar sölu og neyslu á áfengi og áhrif áfengis á mannslíkamann, bæði andlega og líkamlega, og félagslegar aðstæður fólks og tengt þetta við umhverfið í viðkomandi landi, þ.e. aðgengi að áfengi og verð á vörunni og hvernig verslunarháttum er fyrirkomið. Ég hef ekki séð neina rannsókn sem sýnir fram á að ekki sé samhengi á milli aðgengis og drykkju, þ.e. magns á hvern einstakling eða viðkomandi þjóð, og áhrifa áfengis á heilsufar þjóðar.

Það er ljóst að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Áfengi sem vímugjafi er algengasti vímugjafinn sem mannfólkið notar, sama hvar er í heiminum. Það er líka alveg ljóst að áfengisneysla er mismunandi eftir löndum og eftir heimsálfum, hvernig hefðin er fyrir drykkju. Drykkjumagnið er þar af leiðandi líka misjafnt en alls staðar eru áhrifin þau sömu, bæði líkamleg og félagsleg. Áfengi sem vara, sem vímugjafi, hefur því í langflestum tilfellum skaðleg áhrif og jafnvel þó að drykkjan sé lítil, sé hófleg drykkja, hefur hún til margra ára alltaf einhver skaðleg áhrif.

Talað er um það núna, hæstv. forseti, að það geti verið af hinu góða að drekka eitt rauðvínsglas á dag. Það má vel vera að hóflega drukkið rauðvín eða ákveðnar víntegundir hafi góð áhrif á takmarkaða þætti en það ber frekar að horfa á það sem undantekningu. Við verðum að horfa á heildina alla, hverjir neyta áfengis, hverjir verða fyrir mestum skaða og hvernig við getum dregið úr drykkju eða aðgengi þessara hópa.

Það er líka ljóst að áfengisneysla unglinga hefur því miður ekki minnkað eins og við hefðum viljað. Margt bendir til þess að þar sé frekar um aukningu að ræða. Það er alveg ljóst að drykkja Íslendinga 15 ára og eldri hefur aukist á undanförnum árum og er meðaldrykkja núna rúmir sjö lítrar af áfengi á ári og fer hækkandi.

Það sem er líka alvarlegt, hæstv. forseti, er að mjög margir eða langflestir þeirra sem neyta ólöglegra fíkniefna hafa byrjað sinn feril í áfengisdrykkju sem leiðir svo til neyslu sterkari efna. Þetta er ekki algilt en langflestir hafa gert það, hitt er frekar undantekning. Neysla áfengis getur því leitt til neyslu á sterkari efnum. Á þetta sérstaklega við um ungt fólk og ungmenni sem fara þennan veg.

Ég held að við 1. umr. málsins þurfi ekki að fara sérstaklega yfir áhrifin á mannslíkamann, ég held að þau séu okkur öllum ljós. En þá er líka spurningin: Hvers vegna er verið að þessu? Ég leyfði mér í stuttu andsvari fyrr í dag að minna á að við erum með aðra vöru sem fellur undir það sama að vera ekki venjuleg neysluvara, þ.e. tóbakið, og ætti samkvæmt núverandi skilgreiningu að vera á bannlista, ætti ekki að vera í sölu, því að eiturefni tóbaks eru langt umfram það sem leyft er samkvæmt núgildandi stöðlum um leyfilegt magn af eiturefnum í einni einstakri vöru. Samkvæmt því ætti að banna framleiðslu og sölu á tóbaki. En fyrir langa hefð og sterk ítök tóbaksframleiðenda hefur það ekki orðið og verður því miður ekki á næstunni. Í dag er tóbakið því löglegt fíkniefni og gildir um það sami rammi og um áfengið að þeir sem afgreiða tóbak eiga að vera eldri en 18 ára og tóbak má ekki selja unglingum yngri en 18 ára. Hvort tveggja er brotið, það vitum við. Með frumvarpinu á að setja aldursramma, að þeir sem afgreiða vöruna séu ekki yngri en tvítugir og þeir sem kaupa hana séu eldri en tvítugir. Ég tel að það sé mjög mikill barnaskapur að halda að einhver önnur lögmál muni gilda um bjór og léttvín í matvöruverslunum en um tóbakið í dag. Ég leyfi mér að fullyrða að það verða sömu vandamál uppi hvað varðar áfengið og tóbakið í dag.

Ég minni líka á að í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, í útsölum hennar í dag, eru seldir áfengir drykkir sem sérstaklega eru framleiddir til að höfða til unglinga. Það eru þessir áfengu ávaxtadrykkir. Og sjá menn það ekki fyrir sér ef slíkir drykkir verða komnir inn í matvöruverslanirnar að sala á þeim drykkjum aukist til unglinga? Ég vantreysti í sjálfu sér ekki unglingunum sem eru settir í þær aðstæður að eiga að afgreiða, staðreyndin er bara sú að ekki er hægt að ætlast til þess að þeir standist þann þrýsting sem á þá er lagður.

Hverjir græða á þessu? Ég lít ekki á það sem gróða fyrir neytendur að hafa betra aðgengi og geta keypt bjór og léttvín á lægra verði. Ég tel það ekki sérstaka hagsmuni fyrir neytendur. Heildsalan á að verða á samkeppnisgrunni samkvæmt frumvarpinu og það á að vera mögulegt að selja léttvín og bjór í öllum matvöruverslunum, bæði litlu versluninni á horninu og stóru verslunarkeðjunum. Hvernig er þetta í dag? Stóru verslunarkeðjurnar hafa öll tök og möguleika á því að pressa niður verð á vörum og verður það ekki svo með þessa vöru eins og aðra? Mun þetta auka fjölbreytnina í verslununum? Er það hagur fyrir neytendur að fá þá vöru sem selst best? Það seljast ekki allar bjórtegundir og ekki allar léttvínstegundir jafn vel. Það gerist eins og með aðra vöru að þær tegundir verða til sölu sem seljast mest, tegundunum mun fækka.

Það er jafnréttismál í dag fyrir alla sem kaupa þessa vöru að sama verð er á vörunni hvar sem þeir eru staddir á landinu. Það er sama hvort menn eru á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi, það er sama verð á vörunni. Verði þetta frumvarp að lögum tel ég alveg ljóst að útsölustöðum ÁTVR úti um land muni fækka, því að ef bjórinn og léttvínið er komið inn í matvöruverslunina eða verslanirnar á viðkomandi stað verður ekki rekstrargrundvöllur fyrir útsölustað víða því að léttvín og bjór er sú vara sem selst mest og heldur í raun og veru uppi sölu í vínbúðum ÁTVR úti um land. Þeir sem eru þar í forsvari segja að það sé alveg ljóst að þá verði þeim lokað.

Útsölustöðum ÁTVR hefur fækkað úti á landi. Ég hefði viljað sjá ÁTVR sinna miklu metnaðarfyllra sölustarfi en gert er í dag, leggja áherslu á að reka verslanir með metnaðarfullum hætti, þ.e. í góðu húsnæði og þar sem verslanir eru fyrir, í verslanakjörnum, þannig að það sé ekki langt fyrir fólk að fara, en geta jafnframt haldið utan um alla þá þætti sem þarf að passa.

Mér er hugsað til þeirra einstaklinga á Íslandi sem eru að ryðja sér þar braut núna í framleiðslu á bjór úr íslensku byggi. Það liggur í loftinu að fleiri hyggi á þessa framleiðslu og vilji vera með séríslenska vöru, íslenskan bjór, sem er bara hið besta mál. En ég hef líka heyrt frá þessum sömu aðilum að þetta verði þeirra banabiti ef frumvarpið gengur eftir. Ef þetta gengur eftir geti þeir bara lokað, því að stóru verslanirnar sem hafa allt í höndum sér hvað varðar framleiðslumagn og verðlag muni pressa verðið svo niður og gera þær kröfur um framleiðsluna að þessir litlu framleiðendur geti ekki staðið undir gæðunum ef framleiða á samkvæmt kröfu, eða að þeir geti ekki framleitt vegna þeirrar pressu sem hugsanlega verður varðandi verðlag og verið samkeppnisfærir við innflutta bjórinn.

Við skulum líka horfa á þetta í víðara samhengi, til þeirra sem eru í þessari nýju framleiðslu að framleiða bjór hér á landi, þeir munu ekki sitja við sama borð. Núna er kostnaðurinn við dreifingu á bjór á hendi ÁTVR en yrði á hendi framleiðenda ef af þessu yrði. Þar kemur aukakostnaður.

Ef aðeins er horft á þetta út frá samkeppnisgrunni þá er líka margt að varast ef verið er að tala um meira aðgengi. Það verður örugglega betra aðgengi á höfuðborgarsvæðinu og hugsanlega haldið í við vörutegundir en það verður örugglega ekki svo úti um land og til lengri tíma litið verða þær vörur sem seljast mest til sölu í þessum verslunum en öðrum vörutegundum mun fækka.

Hæstv. forseti. Það væri hægt að segja margt um þetta frumvarp nú við 1. umr. Ég hvet alla sem koma að þessu máli að fara vel yfir það, ekki út frá markaðssjónarmiðum, ekki út frá verðlagi, ekki út frá samkeppnisstöðu innflytjenda og ekki út frá þrýstingi smásöluverslana um að fá þessa vöru inn í verslanirnar. — Maður getur í sjálfu sér alveg skilið það, hvaða smásöluverslun mundi ekki vilja fá bjór og léttvín inn í verslunina til að auka söluna? Það er nefnilega það sem við sitjum uppi með, til að auka söluna. — Ég hvet menn til að horfa á málið út frá skaðsemi áfengis og þar er mér fyrst og fremst hugsað til ungmenna og hvaða áhrif þetta muni hafa á drykkjusiði þeirra og heilsu, og sérstaklega ber nú að varast þá áfengu gosdrykki sem eru núna markaðssettir sérstaklega fyrir börn.

Ég legg til að frumvarpinu verði einnig vísað til heilbrigðis- og trygginganefndar til yfirferðar út frá forvarnasjónarmiði svo það verði ekki eingöngu lesið með gleraugum samkeppni og viðskipta og lægra verðs og aðgengis fyrir neytendur, sem mundi þýða meiri drykkju, meiri heilsufarsvandamál og meiri kostnað fyrir ríkið hvað varðar meðferð þeirra einstaklinga sem ánetjast áfengi.

Hæstv. forseti. Af því að mér finnst svo margir tala um betri drykkjusiði og drykkjusiði fullorðinna sem drekki bara lítið og pent af léttvíni með góðri steik eða rauðvín með steikinni og hvítvín með fiskinum, þá er það orðið staðreynd að áfengisvandi miðaldra fólks á Íslandi hefur stóraukist með þessari léttvínsdrykkju, með fiski og kjöti og öllu þar á milli. Þetta er líka vanabindandi. Við skulum ekki gleyma því að áfengi er ávanabindandi og leiðir oft og tíðum til harmleikja og félagslegra vandamála.