135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:41]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem nú í fyrsta lagi upp til að biðja hv. þingmann náðarsamlega afsökunar á því að hafa ekki verið hér við upphaf hans merku ræðu. Það stafaði bara af því að ég þurfti að hlaupa út á skrifstofu mína og ná þar í hlut sem ég hafði gleymt. En ég náði samt að hlýða á nánast alla ræðu þingmannsins og þakka honum fyrir hana. Þar komu fram sjónarmið sem eru þekkt frá þeim sem eru andsnúnir þessu frumvarpi, sjónarmið sem ég virði í sjálfu sér alveg þótt ég sé þeim ósammála.

Það var þó eitt í ræðu hv. þingmanns sem mér fannst dálítið furðulegt. Það var það að hv. þingmaður vonaðist til þess að þetta mál yrði ekki tekið til endanlegrar afgreiðslu hér á þinginu. Það finnst mér ólýðræðisleg nálgun á málið. Auðvitað eiga þingmenn að fá að segja skoðun sína á frumvörpum sem hér eru lögð fram og séu þau ekki samþykkt er það bara þannig og þá ná þau ekki lengra. Það er ekkert sérstaklega lýðræðislegt að mál fái ekki að koma til afgreiðslu og dálítið einkennilegt að þingmenn mælist beinlínis til þess að það verði.

En úr því að hv. þingmaður vísaði til 1. gr. áfengislaganna og vísaði til þess að þar segði að tilgangur laganna væri að vinna gegn misnotkun áfengis held ég að allir í þessum þingsal sem hér eru, flutningsmenn frumvarpsins og aðrir, geti verið sammála um að misnotkun áfengis sé óæskileg. Við erum sammála um það. Með þessu frumvarpi erum við ekki að mælast til þess að áfengi verði misnotað. Við erum ekkert að draga úr því að afleiðingar slíkrar misnotkunar séu alvarlegar. Alls ekki. (Forseti hringir.) Við viljum ekki misnotkun en við viljum frjálsa verslun með (Forseti hringir.) þessa vöru.