135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:43]
Hlusta

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég reyndar vil taka fram að helst af öllu vildi ég náttúrlega að málinu yrði algerlega hafnað í þinginu, bara fellt. Ég sagði það reyndar í lok máls míns.

Varðandi sýn á misnotkun á áfengi sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tók undir með 1. gr. laganna gleðst ég yfir því. Við erum náttúrlega sammála í því og gerum okkur grein fyrir því hvað áfengisneysla getur haft alvarleg áhrif á líf fólks, ekki aðeins þess sem neytir áfengisins heldur líka hins sem í kringum fólkið er. Það sem ég var að reyna að segja áðan líka og kannski kom ekki nógu vel orðum að er að þessi heimur tengist líka fíkniefnaheiminum. Áfengisdrykkja er orðin töluvert samtvinnuð eiturlyfjaheiminum.

Ég veit það af eigin reynslu af störfum mínum af því að margir unglingar sem eru byrjaðir að nota amfetamín undir 18 ára aldri hafa sagt mér að neysla þeirra á þeim efnum hafi hafist í partíum þar sem þeir voru að drekka bjór. Svo þegar þeir voru farnir að drekka bjórinn og hann farinn að virka á heilann og slæva dómgreindina kom einhver og sagði: Prófaðu þetta. Prófaðu þessa ecstacy-töflu. Það er allt í lagi. Ég hef prófað það líka.

En ég hvet eindregið til þess að við fylgjumst vel með því og förum að taka alvarlega á því hvað fíkniefnavandi á Íslandi er orðinn mikill. Hann er mikill og við verðum að bregðast alvarlega við. Það gerum við alls ekki með því að fara að selja vín í búðum. (Forseti hringir.)