135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:45]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið erfitt að ræða þessi mál á þessum nótum. Við leggjum til að fólk geti keypt sér léttvín og bjór úti í búð, farið út í búð og keypt sér rauðvín með ostinum sem það kaupir sér. Þá fara menn á þingi að ræða um að einhverjir kunni að leiðast út í neyslu fíkniefna. Þá fara menn að setja þetta í samhengi við fíkniefnaneyslu. Mér finnst það fulldramatísk framsetning á málinu.

Mér finnst það ekki sanngjarnt gagnvart okkur sem flytjum þetta mál að það sé a.m.k. gefið í skyn að við gerum okkur ekki grein fyrir alvarleika þess að áfengi sé misnotað. Auðvitað gerum við það. Öll viljum við vinna gegn misnotkun áfengis.

Ég gat ekki betur heyrt á hv. þingmanni, sem talar hér með þeim hætti sem hann gerir um áfengisneyslu og annað, en að hann færi þau rök gegn frumvarpinu að af því að eitthvert ógæfufólk misnoti þessa hluti þá beri að hefta aðgengi allra annarra að vörunni sem geta eða kunna að fara með hana. Ég get ekki skilið ræðu hv. þingmanns, með allri virðingu fyrir henni og honum, öðruvísi en þannig að hann færi í raun rök fyrir því að það eigi að banna verslun með áfengi á Íslandi burt séð frá því hvort það er ríkið sem stundar þá verslun eða einkaaðilar.

Ef þessi skilningur minn er rangur bið ég hv. þingmann um að leiðrétta mig í seinna andsvari sínu.