135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:52]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fékk ekki að heyra lausn hv. þingmanns á því hvernig hann ætlaði að takast á við þann raunveruleika sem við horfum upp á í dag. Reyndar sé ég ekki skynsemina í að litið sé á áfengi þessum heilögu augum, eins og þetta sé einhver helgigripur sem maður fari í ákveðið musteri til að kaupa frekar en hverja aðra vöru.

Ég hef enga trú á að sú stefna sem hv. þingmaður boðar, að banna allt saman, muni ráða bug á þeim vanda sem við erum báðir sammála um að sé til staðar. Ég hef enga trú á því.

Ég spurði hv. þingmann hvort það væri þá enginn eiturlyfjavandi í landinu, því að eiturlyf eru jú einu sinni bönnuð. Og ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann með einhverjar hugmyndir til lausnar á þeim vanda, að breyta áfengislögunum eða gera eitthvað fleira? Hvað væri það þá helst?