135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:07]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það þurfi að taka áfengismálin í heildina, horfa á áfengislöggjöfina, horfa á hvernig við leggjum þetta upp og hvaða áfengisstefnu við viljum reka. Hér á landi rekum við eina ströngustu áfengisstefnu og áfengislöggjöf í heiminum. Þegar verið er að tala um aðgang að áfengi er horft til fjögurra þátta og við uppfyllum alla fjóra. Það er bannað að auglýsa áfengi, ríkið hefur einkaleyfi á sölu þess, mjög hátt verð er á áfengi og áfengiskaupaaldurinn er einna hæstur í heiminum eða 20 ár. Það er alveg rétt að það þarf að horfa á þessa hluti í samhengi og á síðasta þingi voru frammi tillögur um að aflétta öllum þessum þáttum og ég hef varað við því að það sé gert á einu bretti heldur verði að skoða einn og einn þátt í einu og velta því fyrir sér hver áhrifin yrðu.

Mig langaði sérstaklega að ræða við hv. þingmann um stefnu ÁTVR sem hefur verið rekin á síðustu árum, þ.e. að gera áfengi aðgengilegra. Það er verið að breyta búðunum, gera þær aðlaðandi, það er verið að fjölga búðum, það er verið að setja þær í verslunarmiðstöðvar, það er jafnvel verið að semja við einkaaðila um rekstur á þessum verslunum. Ég spyr hv. þingmann: Hvaða mun sér hann á því annars vegar að ríkisstarfsmenn afgreiði áfengið yfir borðið eða hins vegar að einkaaðilar geri það? Það er ekki verið að tala um að áfengi verði sett við hliðina á cheerios-pakkanum eða annarri nauðsynjavöru sem við þurfum að nota daglega. Gengið er út frá því (Forseti hringir.) að sérstakar einingar verði í verslunum sem þarf ákveðinn aðgang að.