135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:15]
Hlusta

Þorvaldur Ingvarsson (S):

Frú forseti. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þetta frumvarp sé svar við kalli tímans. Miklar breytingar hafa orðið á íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum og áratugum, þjóðfélagið er miklu opnara og frjálslyndara en áður og því er kominn tími til þess að fella niður einkaleyfi ÁTVR.

Ég velti því fyrir mér í umræðunum áðan þegar við hlustuðum á þá sem eru á móti þessu frumvarpi af hverju þeir komi þá ekki með þær lagabreytingar að við fellum niður bjórdrykkju á Íslandi aftur. Eitthvað verður að gera. Ég er þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að stunda smásöluverslun, ÁTVR er arfur gamalla tíma og því er þetta frumvarp löngu tímabært.

Ég er líka þeirrar skoðunar að áfengi í matvörubúðum muni ekki hafa úrslitaáhrif á lýðheilsu fólks í þessu landi ef rétt er á haldið. Eftirlit verður strangt sem áður og augljóst er að ákvæðið um að afgreiðslufólk í matvörubúðum eigi að vera 20 ára og eldra er eðlilegt miðað við núverandi aðstæður en á sama hátt getur það orðið erfitt í framkvæmd.

Áðan var rætt um aðgengi að áfengi. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi að áfengisneysla á Íslandi hefði aukist í u.þ.b. 7 lítra á ári en lét þess jafnframt getið að í því landi þar sem erfiðast er að nálgast áfengi í Evrópu og kannski öllum heiminum, Grænlandi, væri áfengisneysla 12 lítrar á ári. Það er greinilegt að aðgengi að áfengi hefur í raun og veru ekkert með neysluna að gera, þar eru allt aðrar ástæður.

Mig langar í þessu sambandi að benda á þá tímaskekkju sem viðgengst í íslensku þjóðfélagi hvað varðar innflutning á áfengi ferðamanna til landsins. Ég tel eðlilegt og löngu tímabært að við færum okkur nær evrópskum viðmiðum í þessu efni. Það kemur fram í greinargerð frumvarpsins að ákveðið magn áfengis hefur verið gert upptækt og það er út af fyrir sig vel miðað við þau lög sem gilda í landinu en þessi lög eru ólög. Allt aðrar reglur gilda í öllum okkar viðskiptalöndum og fyrir löngu er kominn tími til að þessu verði breytt.

Ég vil að lokum segja að ég mun styðja þetta frumvarp að því leyti sem varðar matvöruverslun og slíkt en hvað varðar það að fellt sé niður áfengisgjald tel ég það rangt. Ég held að neyslustýring sé það sem við þurfum.