135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:27]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka einungis það sem ég sagði áðan að þetta frumvarp og það sem hv. þingmaður var að benda hér á snýst um traust. Þetta snýst um það að við leyfum fólki að ákveða hvar og hvernig það verslar með áfengi. Hin málin er varða notkun og neyslu á áfengi eru hin merkustu mál til að ræða í þessum sal en aðgengi fólks að áfengi hefur, eins og hér hefur verið bent á, stóraukist á undanförnum árum með aukinni og bættri þjónustu ÁTVR þannig að það hver selur áfengið, opinberir starfsmenn eða einkaaðilar, er ekki stóra málið í þessum aðgengismálum. Ég vil að það komi hér skýrt fram.

Við eigum að taka þessa forvarnaumræðu, þá umræðu um þau vandkvæði sem áfengi fylgja og ég er tilbúin í hana hvenær sem er, en þetta mál snýst fyrst og síðast um verslunarrekstur sem einkaaðilar eru að mínu áliti betur fallnir til að sinna.