135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:31]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þar þekkti ég loksins vinstri græna í þessari umræðu, ekki að það komi neitt sérstaklega á óvart. Málflutningur þeirra snýst ekki bara um að breyta sölufyrirkomulagi áfengis heldur snýst þetta um að banna allt sem geti hugsanlega nokkurn tíma valdið okkur skaða. Þetta snýst um að stjórnvöld, við sem löggjafinn, eigum að taka ábyrgð á því hvernig einstaklingar fara með sitt eigið líf. Ég er ekki sammála þingmanninum í þeim efnum. Ég tel, t.d. varðandi ruslfæði og aðgengi barna að því, að það sé ekki hamborgarastaðnum að kenna að börn borði hamborgara heldur eigi foreldrar fyrst og síðast að hafa vit fyrir börnum sínum og kenna þeim að borða hollan mat.

Á nákvæmlega sama hátt snýst þetta mál ekki um það hvort opinber starfsmaður eða einkaaðili sé betri verslunarmaður. Þetta snýst um að ríkisvaldið á ekki að standa í verslunarrekstri og það er grundvallarspurningin í þessu samhengi. Það er rangt sem fram kom hjá þingmanninum að ekki hafi komið fram í umræðunum að þetta snúist um verslunarrekstur. Þetta snýst um frjálsa verslun en ekki, eins og samflokksmaður hv. þingmanns sagði áðan, um að flutningsmenn gengju erinda ákveðinna verslunareigenda í þessu efni. Þetta snýst um að gefa verslun frjálsa.