135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[18:47]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn talaði hér um að það væri ekkert til sem héti vínmenning. Menning er samt allt sem maðurinn tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er að drekka góð vín með góðum mat eða eitthvað annað og auðvitað drekka menn víða í hinum vestræna heimi gott vín hóflega með mat. Það þarf ekki annað en að nefna Suður-Evrópulönd.

Við Íslendingar höfum hins vegar að mínu mati verið að þróa með okkur ákveðinn kúltúr í vínmenningu. Af því að þingmaðurinn kom inn á bjórinn sem leyfður var hér 1989 vil ég segja það sem mína skoðun að ég held að það hefði verið algjört óráð ef það frumvarp hefði verið samþykkt fyrr en 1989. Það er svo margt sem hefur gerst á stuttum tíma.

Þess vegna endurtek ég það sem ég sagði áðan að það hefur allt sinn tíma í þessum efnum. Ég hygg að þegar sagnfræðingar framtíðarinnar fara að skoða ræður frá hinu háa Alþingi þar sem þetta var rætt muni menn sjá ákveðna samfellu í umræðunni og það að umræðan hafi einmitt þróast jákvætt. Menn munu þegar fram líða stundir taka þá ákvörðun að rýmka þessa áfengislöggjöf. En ég held, og ítreka það sem ég sagði áðan, að rétti tíminn sé ekki núna á þessu þingi.