135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:47]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hef skuldbindingar gagnvart hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þegar ég var formaður þingflokks Samfylkingarinnar gerði ég ásamt honum samkomulag við framkvæmdarvaldið um tiltekna niðurstöðu. Það fól í sér loforð gagnvart þinginu um að allir þingflokkar fengju að koma að þessu máli. Einn flokkur hefur lýst afdráttarlausum vilja sínum til þess að rjúfa þetta samkomulag. Það er flokkurinn sem ekki stóð við orð sín þegar hann fór með valdið til þess að skipa nefndina.

Ég vil segja það alveg skýrt að ég tek það fullkomlega gilt sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir segir um sinn hlut að þessu máli. Þremur mánuðum eftir að hún gaf þessa yfirlýsingu hér í kjölfar samninganæturinnar 15. mars fór hún úr ráðuneytinu. Það kann vel að vera að þegar hún fór hafi tilnefningarnar ekki verið komnar. En við af henni tók enginn annar en formaður Framsóknarflokksins sem síðar varð, Jón Sigurðsson. Það liggur alveg ljóst fyrir að tilnefningarnar höfðu borist.

Einn þingflokkur var seinn til þess að tilnefna en tilnefningar höfðu borist. Þær voru til í iðnaðarráðuneytinu og ég gróf þær þar upp. Meira að segja líka drög að skipunarbréfi sem Framsóknarflokkurinn sendi aldrei. Af hverju? Að því er varðar þann möguleika sem hv. þingmaður nefnir að gefist hefði tóm til þess að klára þetta mál fyrr — ég komst ekki að þessu fyrr en á miðju sumri — vil ég bara segja að sá tími sem ég gef þessari nefnd til að starfa er nákvæmlega sami tíminn og hv. þingmaður lofaði þinginu þegar hún gaf yfirlýsinguna.

Ég er að efna loforð Framsóknarflokksins sem hann hefur hvorki kjark né burði til þess að standa við. Hvar hefur hann verið í þessari umræðu? Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir flúði úr salnum þegar við ræddum vatnalögin um daginn. Hvar var fulltrúi Framsóknarflokksins á fundi iðnaðarnefndar í morgun? (Forseti hringir.) Hann mætti ekki. Af hverju? Ég spyr. Af því að Framsóknarflokkurinn er með óhreina samvisku í þessu máli.