135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:29]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu lýsa yfir ánægju minni með að fjármálaráðherra og ríkisendurskoðandi séu komnir að ákveðinni niðurstöðu um þann túlkunarágreining sem upp kom milli þeirra varðandi málið. Jafnframt vil ég líka lýsa yfir nokkurri undrun á því hvernig sú umræða sem farið hefur fram um málefni Grímseyjarferju hefur snúist á þeim fáu dögum sem ég hef setið á hinu háa Alþingi.

Í mínum huga snýst þetta mál um ákveðin grundvallaratriði. Í fyrsta lagi um hvernig samgöngum við Grímsey er háttað. Hins vegar hefur umræðan nær eingöngu snúist um framkvæmd sem hefur farið fram úr áætlun. Ég verð að upplýsa að miðað við yfirferð mína yfir fjáraukalög, stöðu ríkisstofnana á sex mánaða uppgjöri og þriggja mánaða uppgjöri, og vinnu við fjárlagagerð ársins 2008, þá er það lítið fréttnæmt að rekstur stofnana eða framkvæmdir fari fram úr fjárlögum. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Það er nær því að það væri meiri frétt ef framkvæmd eða rekstur stofnana stæðist fjárlög eða væri undir fjárlögum. Þess vegna er undarlegt að hlýða á reynda þingmenn, m.a. fyrrverandi stjórnarþingmenn, ganga um sali með yfirlýsingar um að þetta komi þeim allt í opna skjöldu, þegar maður hefur upplýsingar um að í samgönguáætlun áranna 2003–2014 var gert ráð fyrir 400 millj. kr. framlagi til Grímseyjarferju. Svo ræða menn það eins og þetta komi þeim gersamlega í opna skjöldu.

Um það er ekki deilt að formlegar fjárveitingar merktar í krónum hefur skort inn í fjárlög við vinnslu þessa máls, miðað við þann skilning sem menn vilja leggja í þetta núna. En miðað við hefðina og miðað við reynsluna af því hvernig slík verk hafa áður verið unnin þá er ekkert óeðlilegt við það. Ágreiningurinn í málinu snýst um túlkun á ákvæðum fjárreiðulaga, sérstaklega 37. gr. og síðan einnig varðandi heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga. Hér liggur fyrir í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra og Ríkisendurskoðunar vilji til að fara í þá vinnu með fjárlaganefndinni að endurskoða þessi ákvæði og hvernig þeim er beitt.

Þetta mál er í mínum huga ágætisáminning til okkar þingmanna um að standa vörð um fjárveitingavaldið á hinu háa Alþingi. Ríkisendurskoðun er vissulega eftirlitsaðili okkar í þeim efnum. Fjárlaganefndin hefur eins og henni ber sett málið í ákveðinn farveg og ég lýsi yfir sérstakri ánægju með þær undirtektir sem það verklag hefur hlotið.