135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:32]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er sjálfsagt og eðlilegt að málefni Grímseyjarferjunnar séu tekin til umræðu utan dagskrár. Mikið hefur verið skrifað og sagt um þau mál öll og langt í frá að öll kurl séu komin til grafar. Engum blöðum er um það að fletta að margt hefur farið úrskeiðis í því ferli og í raun er óviðunandi að ábyrgðinni sé varpað á milli aðila og enginn axli ábyrgð á axarsköftunum.

Það hefur komið fram að meðferð fjármuna ríkisins eru á skjön við lög og reglur svo ekki sé meira sagt. Það eitt ætti að sjálfsögðu að kalla á að hæstv. fjármálaráðherra axlaði ábyrgð. Það er ólíðandi að fjármálaráðuneytið hagi sér eins og það sé jafnframt fjárveitingavaldið. Það vald liggur hjá hv. Alþingi sem verður að sjálfsögðu að taka hlutverk sitt alvarlega og vinna sjálfstætt gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Á vettvangi samgöngunefndar hafa málefni ferjunnar komið til umræðu. Nefndin fékk m.a. á fund sinn fulltrúa ráðuneyta, Vegagerðar og Ríkisendurskoðunar. Þá heimsótti samgöngunefnd, að minni tillögu, Grímsey í haustferð sinni um Norðausturland og átti ágætan fund með sveitarstjórninni þar. Hins vegar er umfjölluninni um málið hvergi nærri lokið á vettvangi samgöngunefndar. Það hlýtur að vera ásetningur formanns nefndarinnar að vinna greinargerð eða skýrslu um málið, mál sem hv. formaður samgöngunefndar hefur kallað klúður á klúður ofan.

Svara þarf margvíslegum spurningum sem lúta að samgöngum milli lands og Grímseyjar og hvernig sú ferja sem ætlað er að sinna því hlutverki er í stakk búin til siglinga á þeirri leið. Hvernig þjónar hún hagsmunum Grímseyinga og mætir þörfum þeirra og til hversu langs tíma yrði sú fjárfesting? Það kom skýrt fram hjá sveitarstjórn Grímseyjar að þar hafa alltaf verið miklar efasemdir um það skip sem ákveðið var að kaupa og það er rangt sem haldið hefur verið fram, að heimamenn hafi sérstaklega verið með í ráðum enda er komið á daginn að viðvörunarorð þeirra hafa átt fullan rétt á sér.

Því er afar áleitin spurning hvort yfirvöld samgöngumála hafi einfaldlega veðjað á rangan hest þegar ákveðið var að kaupa umrædda ferju og gera á henni umtalsverðar breytingar, jafnvel þannig að ráðleggingar skipaverkfræðinga voru að engu hafðar. Alls er óvíst að skipið verði nokkru sinni haffært. Þeim spurningum og mörgum fleirum verður ekki svarað nema með óháðri rannsókn málsins frá upphafi til enda þar sem öllum steinum verður velt við. Samgönguráðherra hefur að vísu ákveðið að láta skoða feril málsins eitthvað en fær til þess verks þá sem unnið hafa alla vinnuna til þessa. Enginn verður dómari í eigin sök og þess vegna er nefndarskipun hæstv. samgönguráðherra hreinn kattarþvottur. Hið sama á við um álit meiri hluta fjárlaganefndar sem nú hefur skilað áfangaskýrslu til Alþingis um málið.

Herra forseti. Það er brýnt að Alþingi sýni myndugleik og trúverðugleika í þessu máli. Meiri hluti fjárlaganefndar svarar engum spurningum í áliti sínu í málinu og leggur í raun blessun sína yfir vinnubrögðin og óráðsíuna. (GSv: Það er ekki rétt.) Það er alvarlegt og ámælisvert. (KÞJ: Þetta er rangt.) Alþingi skuldar Grímseyingum að taka af myndarskap á þessu máli og tryggja að samgöngumálum Grímseyinga verði komið í viðunandi (Forseti hringir.) horf til frambúðar.