135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

fjárheimildir til endurnýjunar Grímseyjarferju.

[14:51]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu en ég held að hún sé einungis upphaf umræðunnar sem við eigum eftir að taka um þetta grátlega mál á vettvangi þingsins.

Það mátti heyra á nýjum formanni fjárlaganefndar að honum virtist létt yfir því að hann teldi að fjölmiðlar hefðu ekki orðið mikinn áhuga á þessu máli, þetta væri ekki fréttnæmt. Hann vakti sérstaka athygli á því. Það er ekki mælikvarði á alvarleika mála. Það er heldur ekki mælikvarði á alvarleika mála sem hv. varaformaður fjárlaganefndar nefndi í sinni ræðu, að það væri ekkert nýtt að fjárlagaliðir færu fram úr heimildum.

Ríkisstjórnin ákvað á sínum tíma að verja 150 millj. kr. til verksins árið 2005. Nú er kostnaðurinn kominn yfir 500 millj. kr. Er það ekki fréttnæmt? Ég er ansi hræddur um það. Ég vona að nýr meiri hluti í fjárlaganefnd líti ekki svo léttvægt á þetta mál sem þó virðist.

Það var dapurlegt, hæstv. forseti, að þurfa að sitja undir því, sem fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, að menn segðu einkennilegt að ég skyldi standa upp og taka hin og þessi mál til umræðu eða leyfa mér að ræða sum mál. Hæstv. ráðherra sagði að ég hefði manna síðastur handfjatlað þá heimildargrein sem hefur leitt til rúmlega 500 millj. kr. útgjalda til þessa verkefnis.

Hæstv. forseti. Ég sagði í ræðu minni áðan að Alþingi Íslendinga og þáverandi ríkisstjórn hefði verið leynd ákveðnum gögnum. Þessi umframkeyrsla kom aldrei inn á borð fjárlaganefndar og engum fjárlaganefndarmanni datt í hug að spyrja sérstaklega út í það vegna þess að við yfirferð viðkomandi ráðuneyta á málinu sáu embættismenn enga ástæðu til þess að ræða málið sérstaklega. Þingið var leynt þessum upplýsingum. Það er staðreynd málsins. Ég hafna því fyrir hönd fyrrverandi fjárlaganefndar að hún beri fyrst og fremst ábyrgð á þessu verki eins og hæstv. fjármálaráðherra ýjaði að, sem ber höfuðábyrgðina.

Hæstv. forseti. Ég sakna þess að Samfylkingin, sem hóf þetta mál í aðdraganda síðustu kosninga, skuli hafa runnið á rassinn eins og raun ber vitni. Þar vísa ég til ræðu formanns samgöngunefndar, hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur. Ég vil segja við hv. þingmenn stjórnarliðsins: Horfið til hægri og vinstri á ráðherrana á bekkjunum. Keisarinn er ekki (Forseti hringir.) í neinum fötum. Við skulum viðurkenna það í þessu máli.