135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:34]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hér hefur verið lagt fram er ákaflega jákvætt og í anda okkar framsóknarmanna. Við höfum verið með það á stefnuskrá okkar að efla Fjármálaeftirlitið og því fögnum við öllum tilburðum í þá áttina.

Það þarf engum blöðum um það að fletta að á undanförnum árum hefur íslenskur fjármálamarkaður vaxið hröðum skrefum og er orðin sú atvinnugrein sem leggur mest til þjóðarframleiðslunnar. Það má gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram næstu árin. En á það má benda að aukið umfang og flóknari starfsemi eftirlitsskyldra aðila leggur bæði nýjar og auknar kröfur á Fjármálaeftirlitið. Þannig þarf starfsemi Fjármálaeftirlitsins að verða alþjóðlegri, það þarf að hafa þekkingu á og yfirsýn yfir starfsemi og áhættu eftirlitsskyldra aðila og fyrst og fremst bolmagn til þess að framfylgja settum reglum.

Það sem við erum kannski aðallega að velta fyrir okkur er það sem kemur hér fram varðandi fjölgun starfsmanna. Í frumvarpinu kemur fram að álagt eftirlitsgjald fyrir árið 2007 verði samtals 601,9 milljónir, 915 milljónir fyrir árið 2008 og að hækkunin nemi 52%. Þetta er ágætt. Það er spurning hvort betur megi ekki ef duga skuli vegna þess að Fjármálaeftirlitið þarf vissulega að geta sinnt öllum skyldum sínum.

Eins og kemur fram í frumvarpinu á að fjölga starfsmönnum fyrir árið 2008 hvað varðar verðbréfamarkað um þrjá, lífeyrissjóði tvo, lánamarkað þrjá, einn vegna aukningar á umsvifum á vátryggingamarkaði og einnig á að fjölga um einn vegna verðabréfasjóða. Í frumvarpinu segir að til að draga úr starfsmannaveltu og gera Fjármálaeftirlitið samkeppnishæfara um starfsfólk sé óskað eftir 16% hækkun til að mæta óvæntum útgjöldum og launaskriði og þróa árangurstengt launakerfi.

Það er kannski það sem við framsóknarmenn viljum spyrja aðeins út í. Fjármálaeftirlitið finnur virkilega fyrir því að starfsfólk þess er eftirsóknarvert og það hefur verið reynt að ná í það af ýmsum aðilum á fjármálamörkuðunum vegna þess að samkeppni um hæft fólk er vissulega mikil. Þá hefur líka starfsemi banka og fjármálafyrirtækja þanist svo hratt út að Fjármálaeftirlitið hefur ekki fylgt þessari þróun eftir og eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu þann 4. maí 2007 er í rauninni sett spurning við það hvort fjármálaráðuneytið hafi styrk til þess að veita nauðsynlegt aðhald.

Í frumvarpinu er lagt til, til þess að viðhalda trúverðugleika Fjármálaeftirlitsins, að það fái svigrúm sem nemi 8% af heildarlaunum til að mæta almennri launaþróun, einkum í fjármálageiranum, þróa kælitímasamninga frekar og bregðast við óvæntri starfsmannaveltu. Hins vegar að Fjármálaeftirlitið fái svigrúm sem nemur 8% af heildarlaunum til að þróa árangurs- og frammistöðutengt launakerfi. Árangurstengdar greiðslur yrðu eingreiðslur sem bættust við í lok árs og færu ekki inn í almenna launakerfið. Þá hljóta að vakna spurningar um hvernig framkvæmdin eigi að vera á þessu. Verða þessar tölur gefnar upp á eingreiðslunni og er þetta í rauninni ný stefna ríkisstjórnarinnar sem á þá að ná til annarra stofnana í ríkisrekstri?

Þá er hérna líka spurning vegna þess að það kemur fram að það er frávik hvað varðar rekstur Fjármálaeftirlitsins um 31 milljón og þar reyndist veigamesta frávikið sem tengist launakostnaði rúmlega 28 millj. kr. lægri en áætlunin gerði ráð fyrir sem skýrist fyrst og fremst af tímatöf við ráðningu starfsmanna og breytingu á samsetningu starfsmanna í kjölfar mikillar starfsmannaveltu. Ég vil því biðja hæstv. viðskiptaráðherra að útskýra af hverju þessar tímatafir eru vegna þess að það er virkilega aðkallandi að ráða í þessi störf hið allra fyrsta.

Ég ætla ekki að hafa þetta miklu lengra. Það verður seint nóg um það talað eða nægilega undirstrikað að Fjármálaeftirlitið mun fyrst og fremst nýtast öllum markaðnum og maður finnur sérstaklega hjá eftirlitsskyldum aðilum að það er mikill samhljómur um að efla eftirlitið og líka svona til þess að styrkja ímynd fjármálageirans á erlendri grundu.

Eins og ég segi þá er þetta í anda stefnu okkar framsóknarmanna og almennt séð er þetta hið jákvæðasta mál.