135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:42]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég ætla að reyna að svara spurningum þeirra sem voru af ýmsum toga.

Hvað varðar launamál í Fjármálaeftirlitinu, eingreiðslur, stefnu þar að lútandi og tímatafir við ráðningar þá er það náttúrlega innra málefni stofnunar hvernig gengur að finna starfsfólk og mæta starfsmannaveltunni. Kjör einstakra starfsmanna varðandi eingreiðslur o.fl. þekki ég ekki til hlítar. Það er sjálfsagt liður í því að halda í fólk og þarf að sjálfsögðu að vera uppi á borðinu og er örugglega hægt að nálgast þær upplýsingar allar.

Varðandi spurningar sem hv. þm. Ögmundur Jónasson var með í sambandi við sparisjóðina og Samvinnutryggingar þá ætla ég aðeins að fara yfir það mál eins og það horfir við mér og viðskiptaráðuneytinu.

Snemmsumars, fljótlega eftir að ríkisstjórnin tók til starfa, kom umræðan upp eins og hv. þingmaður gat um, um Samvinnutryggingar og fyrirsjáanleg slit á því félagi. Um það ritaði hv. þingmaður, m.a. á sinni ágætu heimasíðu ogmundur.is, hvassan pistil þar sem hann fjallaði um málið sem hann tæpti á áðan. Ráðuneytið tók málið til skoðunar og ég ætla að reyna að rekja niðurstöðuna. Til glöggvunar vil ég fyrst lýsa því sem átti sér í raun stað á sínum tíma, aðdragandanum að þeirri stöðu sem uppi er núna, þegar slit á félaginu eru boðuð og upp koma spurningar um hvernig fé hafi verið notað á þessum árum o.s.frv., hverjir eigi í rauninni sjóðinn og hvort þarna hafi verið óeðlilega gengið um af innanbúðarmönnum í einstökum flokkum o.s.frv.

Fyrir það fyrsta gerist það að þegar Vátryggingafélagið hætti starfsemi árið 1989 færðist félagið undan löggjöf um vátryggingastarfsemi, hætti að vera vátryggingafélag og breyttist í eignarhaldsfélag, eignarhaldsfélag sem er samvinnufélag. Þar með heyrir það undir þá löggjöf og slit á eignarhaldsfélaginu sem er samvinnufélag kemur því ekki inn á borð hjá Fjármálaeftirlitinu. Upptalningin á því hvaða aðilar eru eftirlitsskyldir af Fjármálaeftirlitinu er mjög tæmandi og samvinnufélögin eru ekki á meðal þeirra. Um þau eru sérstök lög. Ég held að í þessu ljósi, þegar maður skoðar þetta, eftirlitið með eignarhaldsfélögum sem eru samvinnufélög en ekki hlutafélög sem heyra undir Fjármálaeftirlitið, eru ekki í starfsemi sem heyrir undir Fjármálaeftirlitið, vátrygginga- eða lánastarfsemi o.s.frv., sé þarna ákveðið lagalegt tómarúm.

Ég tel að skoða þurfi löggjöf um samvinnufélög og þétta hana allverulega þannig að ekki komi upp efasemdir um að rétt eða eðlilega sé farið með fjármuni sem safnast upp í slíkum félögum sem í þessu tilfelli skipta fleiri milljörðum. Ætli það séu ekki 15 miljarðar í þessu tilviki. Menn eru að tala um verulegar fjárhæðir sem skipta að sjálfsögðu sköpum þegar slík félög eru í fjárfestingum annars staðar, ganga inn í félög, ná yfirráðum og auknum hlut o.s.frv. Slíkt bakland skiptir fjárfesta gífurlegu máli. Efasemdir manna hafa einkum beinst að því að þeir sem hafi yfir sjóðnum að ráða hafi nýtt sér það fjármagn til að fjárfesta annars staðar og hirða svo sjálfir ábatann af því en sjóðurinn standi eftir og auðvitað ekki tekið út úr honum fé eða neitt svoleiðis heldur sé hann notaður sem bakhjarl í öðrum viðskiptum, öðrum til ábata en sjóðnum sjálfum og þeim sem eiga hann.

Um þetta snýst umræðan og utan um þetta þurfum við að ná. Við skoðun okkar í ráðuneytinu í sumar kom í ljós að Samvinnutryggingar falla undir samvinnufélagalöggjöfina og eru ekki eftirlitsskyldur aðili Fjármálaeftirlitsins. En ég tel að þétta þurfi og efla lagagrunninn og löggjöfina um samvinnufélög og mun á næstu dögum kynna hvernig að því verður staðið.

Það tengist hinni spurningunni hjá þingmanninum, um sparisjóðina. Á síðustu árum hafa staðið grimmileg átök um sparisjóðina, um framtíð sparisjóðanna. Sparisjóðirnir eru að fóta sig í breyttu umhverfi, í harðri samkeppni. Mig minnir að í dag séu skráðir 24 sparisjóðir í landinu. Nú er verið að sameina sparisjóði, hlutafélagavæða sparisjóði og menn fara í stofnfjáraukningu. Menn fara um landið og bjóða gífurlegar fjárhæðir í stofnfjárhluti á margföldu verði o.s.frv. Þar er því um mikla hagsmuni að tefla.

Eins og staðan er núna, eftir síðustu löggjöf um sparisjóðina sem vakti mikla athygli í þinginu á sínum tíma og mikil átök urðu um þvert á alla flokka, a.m.k. allt að því. Þar komu inn hagsmunir sveitarfélaga og fleira enda eru umræddar lánastofnanir mjög nátengdar sínum svæðum. Þetta eru stofnanir sem spretta upp af því að fólkið sjálft setti á stofn sparisjóði sem skyldu annars vegar veita fólki lánsfjármagn á sem allra hagstæðustu verði og hins vegar byggja upp sjóði til að standa að góðum málefnum.

Frægt dæmi er af Sparisjóði Svarfdælinga á dögunum sem opnaði glæsilegt menningarhús fyrir fleiri milljarða kr. Þessir sjóðir hafa skilað samfélögum sínum mjög miklum verðmætum. Þetta eru mjög merkilegar og mikilvægar stofnanir og mikilvægir sjóðir. Eitt af því sem við verðum að tryggja í þessu breytta umhverfi er að þessir sjóðir verði áfram til, fari ekki burt en séu bundnir við starfsemi á sínu gamla svæði, á einhverju skilgreindu svæði. Þeir verði áfram til og eðlilega með þá farið. Það varð t.d. lendingin varðandi Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Þar varð til stór og mikill menningarsjóður sem var gerður að sérstakri sjálfseignarstofnun sem var kosin sérstök stjórn yfir með stofnskrá og mjög ákveðinni starfsemi o.s.frv. en SPRON breytt í hlutafélag en það geta sjóðirnir gert undir núverandi löggjöf. Það hefur ekkert komið fram sem hindrar þá í að fara eftir þeim brautum sem þar voru markaðar til stofnfjáraukningar og þess háttar.

Þetta er mjög mikilvægt að ná utan um. Fyrir sex vikum tilkynnti ég að ég ætlaði að skipa starfshóp til að fara yfir lög um sparisjóðina sem ætti að skila af sér hið allra fyrsta. Honum yrði settur tímarammi til seinni hluta vetrar. Við óskuðum eftir tilnefningum í nefndina eftir þar til gerðum fyrirmælum. Það er verið að ganga frá þeirri skipan núna. Nefndin á að fara heildstætt yfir lagaumhverfi sparisjóðanna þannig að einhver lending náist og einhver endir verði á málinu og hægt að ganga frá þeirri þróun með einhverri sannfæringu um að rétt hafi að málum verið staðið.

Meginmálið er það að tryggja starfsemi sjóðanna á sínum svæðum, tryggja tilveru og starfsemi hinna félagslegu sjóða, tilvist þeirra og starfrækslu áfram. Að mörgu er að hyggja í þessu og hér er um að ræða félög, annars vegar Samvinnutryggingar og hins vegar eru það sparisjóðirnir, sem lenda í þessum gjörbreytta heimi og það þarf að liggja fyrir hvernig með þau mál verði farið. Eins og fram hefur komið eru engin lög sem eiga beint við um fyrirbrigðið „fyrrverandi gagnkvæm vátryggingafélög“ af því að þau eru ekki vátryggingafélög í skilningi laga um vátryggingastarfsemi. Þau eru ekki hlutafélög og ekki eiginleg samvinnufélög en falla í raun undir lög um samvinnufélög. Þess vegna þarf að skýra það mjög vel og hafa á hreinu hver er raunverulegur eigandi verðmætanna sem hafa safnast upp í þessum félögum. Þegar slík félög hætta að vera gagnkvæm tryggingafélög breytast þau í eignarhaldsfélög út af því lagalega tómarúmi sem væri einhvers konar „fé án hirðis“ sem það er þó ekki af því að við slitin var ákveðið, samkvæmt upplýsingum um þessi mál, að þegar og ef kæmi til slita Samvinnutrygginga skyldi andvirðið renna til þeirra vátryggingataka sem viðskipti hefðu átt við félagið í tvö ár fyrir lok vátryggingarekstrar.

Það má spyrja sig hvort það hafi verið eðlileg ákvörðun, í ljósi þess að Samvinnutryggingar voru gagnkvæmt félag, að andvirðið rynni til þeirra sem voru akkúrat í gagnkvæmum viðskiptum á þeim tímapunkti sem starfseminni var hætt eða fara alveg yfir á hinn vænginn og taka inn alla þá sem höfðu verið í viðskiptum, og alla erfingja þeirra, við tryggingafélagið frá stofnun. Þetta er eitthvað sem er hægt að deila um en á þeim tímapunkti var þetta ákveðið. Nú er deilt um það hvort tveggja ára viðmiðið hafi verið sanngjarnt þegar þessi ákvörðun var tekin. Það kemur að einhverju leyti inn í þá umræðu um undirbúning þess slitafundar sem hefur nú verið frestað.

Það þarf að fara mjög vel yfir lagaramma um samvinnufélögin og sparisjóðina. Í tilfelli sparisjóðanna er unnið að því, liðnar eru sex vikur síðan sá starfshópur var skipaður. Eins er verið að leggja drög að heildstæðri endurskoðun laga um samvinnufélög.

Viðskiptaráðuneytið sendi þann 3. október 2007 bréf til fjármálaráðuneytisins þar sem þetta mál var tekið fyrir. Þar var spurt, og ég ætla að lesa það í lok ræðu minnar, með leyfi forseta:

„Fyrirhuguð slit eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga hafa orðið fréttaefni nú í sumar og verður væntanlega framhald af þeirri umræðu. Komið hefur fram að skilanefnd sé að störfum í félaginu. Samkvæmt lögum um samvinnufélög og samvinnufélagaskrá, sem ríkisskattstjóri starfrækir, ber að löggilda skilanefnd til starfa. Samkvæmt nýjum upplýsingum frá samvinnufélagaskrá virðist hins vegar sem engin slík löggilding hafi farið fram. Samkvæmt lögunum skal skráin jafnframt fylgjast með starfi skilanefndar. Getur hún m.a. brugðist við hafi ástæðulaus dráttur orðið á starfi nefndarinnar eða hún brugðist skyldum sínum. Má skráin þá veita áminningu og frest til úrbóta.

Viðskiptaráðuneytið telur fyrir sitt leyti að rétt sé að athuga til hlítar hvort framangreind löggilding hafi farið fram. Sé svo ekki virðist rétt að hafa samband við forsvarsmenn félagsins og benda þeim á skyldu sína samkvæmt lögum.

Samrit af bréfi þessu sendist hlutafélagaskrá hjá ríkisskattstjóra, Laugavegi 166.“

Þetta bréf sendum við til fjármálaráðuneytisins til að kanna hvort þetta hefði ekki örugglega verið gert. Eins og ég hef talið upp í ræðu minni hefur ráðuneytið fjallað með ýmsum hætti um málið og skoðað það frá byrjun júní. Menn reyna að finna leiðina að því að fjalla um málið og bregðast við aðstæðum sem koma upp, sem þarf að bregðast við að sjálfsögðu. Þetta er meðal þess sem við ætlum að gera, þ.e. að endurskoða heildstætt lögin og ganga úr skugga um að löggilding á skilanefnd hafi farið fram o.s.frv. Vonandi gengur þetta því allt sem eðlilegast og best fram þegar að því kemur.