135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[15:56]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. viðskiptaráðherra fyrir afar greinargóð svör. Ég vil líka þakka honum og ráðuneytinu fyrir að bregðast við strax í sumar með því að gaumgæfa þessi mál þegar því var beint til hæstv. ráðherra og ráðuneytisins í tengslum við fyrirhuguð slit á Samvinnutryggingasjóðnum og vegna umræðunnar um framtíð sparisjóðanna í landinu. Ég hvet til þess að lagasmíðinni sem hæstv. ráðherra vísaði til verði hraðað sem mest má verða. Helst vildi ég sjá lög sem kæmu í veg fyrir að sparisjóðum landsmanna verði stolið, liggur mér við að segja, þeir hlutafélagavæddir og einkavæddir og snúið úr þeim samfélagslegu stofnunum sem Ari Teitsson vísar til í blaðagreininni sem ég las upp áðan og horfið með þær stofnanir inn í allt annan heim sem kemur þeim samfélögum sem sjóðirnir eru sprottnir úr ekki að notum.

Það er mikilvægt að í viðskiptanefnd þingsins fari fram ítarleg umræða og skoðun á þessum málum. Það er erfitt að höndla umræðuna alla hér í þingsal. Málið krefst þess að menn fari yfir gögn, leggist yfir þessi mál og ég hvet til þess að það verði gert í viðskiptanefnd þingsins. Ég á ekki sæti þar sjálfur en fulltrúi okkar flokks á þar sæti og ég hvet til þeirrar umræðu.

Í framhjáhlaupi vil ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að benda á undarlegar staðhæfingar (Forseti hringir.) um launamálin í þessari stofnun. En það er nokkuð sem þarf einnig að taka til skoðunar þegar málið kemur fyrir þingnefnd.