135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:07]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og togaraáhafnar hans um frjálsa sölu á áfengi og tóbaki er nútímalegt, framsækið, metnaðarfullt, frábært innlegg í frelsi fólks til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í innkaupum — eða hvað? Er það kannski alger ranghverfa þeirra orða sem ég sagði? Þau orð eru sótt í ummæli þeirra sem mælt hafa með þessu frumvarpi hér í umræðunni á hv. Alþingi. Það er mín skoðun að þetta frumvarp sé ranghverfa.

Einar heitinn Gíslason í Betel, hvítasunnuprédikari, var einn af rómuðustu ræðumönnum síðustu aldar. Hann var á tjaldsamkomu hjá söfnuði sínum í Vestmannaeyjum. Það var fullskipað tjald, á annað hundrað manns, Einar í blússandi stuði og hafði orð á því að menn ættu að elska óvini sína, umfram allt elska óvini sína og rækta kærleikann. Það væri boðskapur Biblíunnar og hann stæðist. En, vinir mínir, sagði hann, þar sem vínið er, þar er böl, það er versti óvinur mannsins, varið ykkur á víninu.

Þá gall við í einum slompuðum samkomugesti úti í tjaldinu. Varstu ekki að segja það, Einar, að við ættum að elska óvini okkar?

Jú, sagði prédikarinn, ég sagði það. Það stendur í Biblíunni og það er satt og rétt, en það stendur hvergi að það eigi að svolgra honum í sig. Það munar þessu.

Margir leita vináttu til vínsins en því miður hefur reynslan sýnt okkur að það er ákaflega vandmeðfarið. Auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að fullorðið fólk njóti alls réttar til þess að sækja vörur sínar í samfélaginu, en það er engin spurning að aukið aðgengi að víni, til að mynda í verslunum, sjoppum, stórmörkuðum, mun auka verulega drykkjuskap yngsta fólksins, unglinga. Það mun auka þörfina fyrir sjúkraþjónustu og það mun skapa mikinn vanda í þjóðfélaginu sem er ekki á bætandi.

Á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn fer spart með fjármagn til meðferðar gegn áfengissýki ættu menn að hugsa eitthvað í þeim efnum að stöðva frekara aðgengi ungs fólks að áfengi.

Það er oft vitnað í vínið á margs konar hátt. Það er reynt að gera gott úr því. Það hefur komið fram hérna í umræðunni að menn telji að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. Það er margsannað. En hófið er ákaflega vandratað og það er enginn skali sem er hægt að benda á í þeim efnum, og ekki gagnvart þeim allt of stóra hluta fólks sem á við áfengisvanda að glíma. Ef við ætlum að vera vinir hvers annars í þessu þjóðfélagi eigum við líka að gæta bróður okkar í hverju sem er þar sem eitthvað fer úrskeiðis.

Það hefur oft verið sagt hér að þetta sé ekki spurning um neitt annað en viðskiptafrelsi. Vín er ekki viðskiptafrelsi. Vín er annar veruleiki en sá sem menn miða við í heilbrigðri skynsemi og það tekur úr sambandi ákveðna hluti og það getum við sagt sem höfum fæðst drukknir og fylgst með þessu alla ævi. Það getum við sagt.

Það mál sem hér er um rætt er ekkert sem er til þess að slást við nema gagnvart unga fólkinu. Vín truflar samfélagið á neikvæðan hátt þótt margir kunni með það að fara og það þyki sjálfsagt til margra hluta. Það er heldur ekki það sem ég er að fjalla um, ég er að tala um það sem snertir yngsta fólkið í landinu sem á við vaxandi vanda að glíma í þessum efnum.

Þetta á líka við um fólk sem er í eldri kantinum. Á Vogi er gífurleg fjölgun umsókna fólks í kringum fimmtugt og yfir fimmtugu sem neytir víns hvern dag og á við vanda að glíma. Á Alþingi Íslendinga að loka augunum fyrir þessu? Á Alþingi Íslendinga að leggja höfuðáherslu á það að sala á víni sé fyrst og fremst viðskiptafrelsi en ekki félagslegt vandamál? Það er auðvitað líka félagslegt réttlæti, en það er vandamálið sem við þurfum að glíma við.

Það þykir fínt og hefur lengi þótt fínt — ugglaust þykir fólki það líka gott — að drekka vín með mat. Það er ákveðinn siður sem sumir kalla vínmenningu. Það er mín skoðun að það sé ekkert til sem heitir vínmenning, ekki frekar en við köllum það menningu að borða hafragraut. (Gripið fram í.) Það er bara sjálfsagður hlutur og við erum ekkert að leggja áherslu á að það sé einhver menning. Það er bara hið besta mál en það þýðir ekkert að snúa út úr með svona vangaveltum. Eitt er það að halda sönsum og annað að tapa áttum.

Það er nú svo að venjulegt fólk í íslensku þjóðfélagi kaupir ekki þessi dýru vín sem menn eru að hrósa og krefjast að séu í næstu búð. Venjulegt fólk á Íslandi kaupir ekki heldur dýra, tilbúna rétti í nútímafiskbúðum. Venjulegt fólk á Íslandi kaupir einfaldari hluti af því að þeir eru ódýrari og það hefur ekki efni á öðru. Þetta er veruleikinn sem blasir við. Þetta fólk er ekki í verðbréfasiglingunni með ýmsum stórlöxum landsins.

Landspítalinn hefur um 870 rúm fyrir sjúklinga. Milli 400 og 500 sjúkrarúm á Íslandi eru bundin vegna áfengisnotkunar, eru bundin vegna áfengissýki og sjúkdóma af hennar völdum og fíkniefna. Það er helmingurinn af móðurskipi íslenska heilbrigðiskerfisins, sjúkrahúsakerfisins, sem hefur á bilinu 2.500–2.700 starfsmenn og helmingurinn af því þjónustukerfi er í rauninni bundinn vegna áfengisnotkunar.

Það hefur ekki verið gert en það væri fróðlegt að láta gera úttekt á því hvað áfengisnotkunin kostar í raun og veru. Áfengi er lykillinn að fíkniefnaferli, hvort sem það er tóbak eða önnur alvarlegri fíkniefni. Það væri mjög fróðlegt að láta gera úttekt á því hvað þessi pakki kostar, hvað hann kostar íslenska samfélagið. Það væri fróðlegt að hafa þá úttekt á borðinu áður en hv. þingmenn taka ákvörðun um að auka aðgengi ungs fólks, fyrst og fremst, að víni.

Þetta er mjög ákveðið viðskiptafrelsi að einu leyti vegna þess að með tilkomu bjórsins komu margfalt fleiri aðilar að dreifingu og sölu og fjölgaði um hundruð prósentna á veitingastöðum og hjá öðrum sem eiga hagsmuna að gæta. Það flokkast undir viðskiptafrelsi. En eigum við að taka þá áhættu gagnvart okkar unga fólki? Bjórinn jók neyslu barna og unglinga verulega. Síðan hefur farið á verri veg þannig að í dag er reiknað með að áfengisnotkun sé um sjö lítrar af vínanda á mannsbarn í landinu, í staðinn fyrir fjóra lítra fyrir nokkrum árum. Vínmenning? Eigum við ekki alveg eins að nota orðið falsvon? Það segir í gamalli vísnaröð, með leyfi forseta:

Ef eitthvað liggur illa á þér

er ágætt ráð að drekka.

Að fá sér vín, að fá sér öl,

að fá sér nóg að drekka.

Því synda hefur ei sorgin lært

hún sekkur, bara sekkur,

á meðan gullna guðaveig

úr glasi þínu drekkur.

En sé þér, góði, glatt í hug

er gott og hollt að drekka.

Að fá sér vín, að fá sér öl,

að fá sér nóg að drekka.

Því gleðin flýtur ofan á

og alltaf hækkar, hækkar,

á meðan gullin guðaveig

úr glasi þínu lækkar.

Hver er útkoman? Útkoman er einhvers konar ánægja sem er þó ekki hægt að túlka öðruvísi en falsvon. Það er kannski mergurinn málsins þegar fjallað er um þessa hluti í fullri alvöru.

Það er engin formleg bindindiskennsla í skólum landsins. Það hallar undan fæti. Menn hrökkva undan því sem skapar festu og trú, hvort sem það er í bindindiskennslu eða kristinni fræðslu í skólum landsins. Við mættum taka Færeyinga okkur til fyrirmyndar í þessum efnum og sjá hvernig þeir vinna þessi mál og skila mjög yfirveguðu ungu fólki, áferðarfallegu og efnilegu. Við eigum nóg af því á Íslandi. Allt okkar unga fólk er gullefni inn í framtíðina en við skulum ekki að vera að opna fyrir því freistingar við hliðina á prins pólóinu í stórmörkuðunum. Við skulum leyfa jafnvæginu að hafa einhvern forgang. Ég held að það sé löngu tímabært að við ríðum á vaðið og verðum þá í fremstu röð þjóða í þeim efnum að koma á bindindiskennslu og bindindisfræðslu á nútímalegan hátt sem föstum lið í námsefni í skólum landsins. Það yrði gott fyrir samfélagið og það yrði gott fyrir unga fólkið.

Við skulum ekki gleyma því að margs konar rannsóknir hafa leitt í ljós þann vanda sem vínið, tóbakið og sterkari fíkniefni hafa í för með sér. Til að mynda liggur það ljóst fyrir í líffræðilegum rannsóknum að taugaendar barna eru að þroskast allt að 18 ára aldri. Það liggur líka fyrir að unglingar sem byrja að nota þessi efni fyrir þann aldur eru miklu frekar í hættu eftir því sem árin líða gagnvart vanda af þessum völdum en þeir sem ekki hafa notað þessi efni. Það er augljóst samhengi á milli þess og að auka aðgengi að víni, tóbaki og öðrum slíkum efnum. Hollendingar voru núna að banna notkun á ofskynjunarsveppum vegna þess að hún hefur leitt til margra dauðsfalla í Hollandi. Önnur lönd í Vestur-Evrópu hafa ekki leyft sölu á þeim en nú hafa Hollendingar þó brugðist við. Það er alveg ljóst að aukið aðgengi að víni á frjálsum markaði í blússandi samkeppni stórmarkaðanna mundi fjölga dauðsföllum, samkvæmt öllum rannsóknum sem hafa verið gerðar í þessum efnum, um a.m.k. um 20 á ári á Íslandi, 20 ótímabær dauðsföll á ári.

Hátt verð og takmarkað aðgengi, hár innkaupaaldur og auglýsingabann er það eina sem getur staðið í vegi fyrir neikvæðri þróun í þessum málum, fyrir þeirri þróun að auka vandann í heilbrigðiskerfinu, auka vandann í þjóðfélaginu, auka vandann hjá fjölmörgum fjölskyldum sem eiga um sárt að binda þar sem í mörgu tilliti er um harmleik að ræða, sérstaklega gagnvart börnum í þeim fjölskyldum. Þetta er staðreynd. Það þýðir ekkert að tala um þessi mál eins og þetta sé aukaatriði. Það þýðir ekkert að tala um þessi mál eins og menn séu í góðu partíi og veröldin sé bara inni í þessu partíi. Þetta er þjóðfélagsveruleikinn sem við verðum að horfast í augu við.

Það skyti líka skökku við ef ríkisvaldinu væri sett það af Alþingi að auka drykkju í landinu en draga úr meðferð á sama tíma. Við búum líka við þann vanda að drykkja í norðrinu, alveg frá Finnlandi, Noregi, Íslandi og Grænlandi er með allt öðrum hætti en annars staðar í Evrópu. Þar er drukkið fastar og meira. Þetta er eitthvað í okkar þjóðarsál, eða sál þessara landa. Að lækka verð og auka aðgengi er því miður ekki af hinu góða.

Það er alltaf talað um að hófsemdin sé góð en reyndin er sú í þessum efnum að yfirfallið er fullt. Það er gríðarleg offramleiðsla á vínum í Evrópu og það þarf að koma þeim á markað. Evrópa getur ekki bætt meiru á sig. Stundum er sagt þegar menn eru komnir að einhverjum mörkum í drykkju að nú sé rétt að bæta ekki á sig. Evrópa er komin yfir strikið. Við erum sjálf komin yfir strikið, Íslendingar, með sjö lítra á ári af vínanda á mannsbarn en heilbrigðisstefnan miðar við fimm lítra. Við eigum ekki að hafa ofdekrun í aðgengi að áfengi. Við skulum hafa þröskuldana eðlilega af því að þetta er ekki það sem leysir lífshamingjuna eða skapar traustan grundvöll fyrir unga fólkið í landinu sem við eigum að treysta á, sem við eigum að standa við bakið á og hugsa um velferð þess umfram allt.