135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:38]
Hlusta

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafna því algjörlega að frumvarpið feli í sér slælegri forvarnir en eru í núverandi kerfi, ég hafna því alfarið.

Mér finnst mjög sérkennilegt að heyra að þingmaðurinn vilji faktískt fara með okkur aftur til bannáranna, ég bara skil mál hans ekki öðruvísi. Hvað ætlar hann að gera við þá Íslendinga sem fara til útlanda í alls kyns ferðir og koma sér í tóm vandræði með áfengisneyslu þar? Erum við sem sagt einangruð þjóð í engu sambandi við umheiminn? Er það sá veruleiki sem þingmaðurinn vill að við horfum á í þessu efni?

Mér finnst umræðan á algjörum villigötum þegar menn tala með þessum hætti. Hv. þingmaður gerir lítið úr þeirri skoðun minni að það séu fleiri vörur en þessi vara þar sem aðgengi hefur aukist. En það er þannig, það er staðan. Mér finnst furðulegt að þingmaðurinn skuli ekki sjá það um þessa vöru að þetta er vara eins og hver önnur, vara sem við erum að nýta í landinu.