135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:42]
Hlusta

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur manni nú ekki á óvart með hv. þm. Pétur Blöndal að hann tekur mjög oft bara helminginn af málinu, hann reiknar hálft dæmið, þessi yndislegi stærðfræðingur að öðru leyti. Hvort það er ígildi hálfs glass, það skal ég ekki segja — en hann spyr mig hvort ég vilji hafa vit fyrir Vestmannaeyingum í víndrykkju. Það hvarflar ekki að mér frekar en fyrir öðrum landsmönnum. Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst einfaldlega um það að benda á hættuna sem fylgir þessum gjörningi.

Hættan er augljós. Við þekkjum það hvar sem er í heilbrigðiskerfinu, við þekkjum það á meðferðarstofnununum, við þekkjum það í sveitarfélögunum þar sem menn eru að glíma við þennan vanda og við eigum að taka tillit til þess. Við eigum að gera það af fullri reisn og af fullri ábyrgð og ekki vera með neina útúrsnúninga. Minn málflutningur snýst um það að verja ungt fólk fyrir einhverjum óeðlilegum farvegi.

Ég er ekki með neinn predikunartón en ég tala hispurslaust og stundum myndrænt eins og ég er alinn upp við í þeim lúkörum sem ég ólst lengst af upp í. Menn verða bara að þola það. Þetta er vandamál, þetta eru ekki ávextir, þetta er vandamál og það munar því. Alveg sama þó að (Forseti hringir.) menn vilji fá sína rauðvínstegund með steikinni.